Námsbrautir
Leiðin þín: Forsíða >> Námsbrautir >> Námskrá
Námskrá

Með lögum um framhaldsskóla frá 2008 verða töluverðar breytingar á uppbyggingu námsins. Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er fjallað um þá sex þætti grunnmenntunar sem eru leiðarljós í þeim brauta- og áfangalýsingum sem skólinn býður upp á. Grunnþættir menntunar eru:

  •  læsi,
  •  sjálfbærni,
  •  heilbrigði og velferð,
  •  lýðræði og mannréttindi,
  •  jafnrétti,
  •  sköpun.

 

Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir framhaldsskóla. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu, svo sem í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og um áherslur í stefnu um sjálfbæra þróun. Tillit er tekið til alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að, svo sem barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnu alþjóðlegra stofnana sem Ísland er aðili að. Við mörkun stefnunnar sem birtist í skilgreiningu grunnþáttanna er einnig höfð hliðsjón af hugmyndum um fagmennsku kennara og reynslu úr þróunarstarfi í framhaldsskólum í landinu.

Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það. Unnið er bæði að samfélagslegum markmiðum og markmiðum er varða menntun sérhvers einstaklings. Grunnþættirnir eru samfélagsmiðaðir þar sem þeim er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti og lýðræði og að vinna að því að samfélagið fái vel menntað og heilbrigt fólk. Grunnþáttunum er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi. Þegar skólastarf er metið þarf að skoða hvernig grunnþættirnir setja mark sitt á kennslu og nám.

Hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir eru sýnilegir í skólastarfinu og koma m.a. fram í efnisvali og inntaki náms, starfsháttum og vinnubrögðum kennara og annarra. Grunnþættirnir tengjast innbyrðis í menntun og skólastarfi og eru háðir hver öðrum. Þeir byggja á þeirri hugmynd að ekki geti orðið virkt lýðræði án læsis á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins. Virkt lýðræði þrífst aðeins ef jafnframt er stuðlað að hvers konar jafnrétti milli einstaklinga og hópa í samfélaginu. Mannréttindi allra verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð hvers og eins og baráttu gegn mismunun og hvers konar ofbeldi, þar með töldu einelti.

Öllu námi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er skipt upp í fjögur þrep. Kröfur eru stigvaxandi eftir þrepum og samsetning stúdentsprófsins krefst þess að rétt hlutfall þarf að vera á milli þrepa:

 

1. þrep 34 – 66 einingar

2. þrep 66 – 101 einingar

3. þrep 34 – 66 einingar

4. þrep 0 – 20 einingar

 

Áföngum eru gefin lýsandi heiti sem byggjast upp á eftirfarandi hátt:

  •  Fyrstu fjórir bókstafirnir segja til um námsgreinina. Dæmi: LÍFF = líffræði
  •  Þá kemur einn tölustafur sem segir til um hæfniþrep. Dæmi: 2 = 2.þrep
  •  Næstu tveir bókstafir eru lýsandi fyrir áherslur í áfanganum. Dæmi: LE = lífeðlisfræði
  •  Í lokin eru tveir tölustafir sem tilgreina einingafjölda áfangans. Dæmi: 05 = 5 einingar

 

Allir áfangar skólans innihalda lykilhæfniþætti og grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá. Áfangalýsingar hafa hæfnimarkmið sem er skipt upp í þekkingu, leikni og hæfni. Nánar verður vikið að þessum atriðum síðar.

 

Uppfært 6. ágúst 2015

 

 

 

S
M
Þ
M
F
F
L
28
29
30
31
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
1
2
3
4
5
6
7
Fyrri mánuður
ágúst 2019
Næsti mánuður
Mynd af skólanum