Reglur skólans

Skólareglur Fjölbrautaskólans í Garðabæ

  1. gr. Gagnkvæm virðing, kurteisi, heiðarleiki og ábyrgð skulu ríkja í samskiptum nemenda og starfsfólks.

  2. gr. Skylt er að sækja allar kennslustundir stundvíslega. Veikindi skal tilkynna alla veikindadaga fyrir kl.11 samdægurs.

  3. gr. Vinnufriður skal ríkja í skólanum. Nemendur skulu mæta undirbúnir í kennslustundir, vera virkir og lúta verkstjórn kennara. Kennurum er heimilt að vísa nemendum úr tíma valdi þeir ítrekuðu ónæði. Símar og önnur raftæki eru bönnuð nema í tengslum við kennslu og úrvinnslu og í samráði við kennara.

  4. gr. Nemendur og starfsfólk skulu fara vel með muni skólans, ganga vel um húsnæði og lóð hans og gæta fyllsta hreinlætis innan dyra jafnt sem utan. Neysla matvæla er almennt ekki heimil í kennslustofum né í bókasafni skólans. Heimilt er að hafa með sér lokuð drykkjarílát í kennslustundir.

  5. gr. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er tóbakslaus skóli. Allar tegundir tóbaksnotkunar eru bannaðar í skólanum og á lóð hans.

  6. gr. Í skólanum, á samkomum eða í ferðalögum á vegum skólans skal enginn hafa um hönd áfengi eða önnur vímuvaldandi efni né vera undir áhrifum þeirra.

  7. gr. Myndatökur og/eða upptökur af nemendum, kennurum og öðru starfsfólki innan skólans eru óheimilar án leyfis viðkomandi aðila.

  8. gr. Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur og gæta þess að varpa ekki rýrð á heiður hans.

Brot á reglum þessum geta varðað refsingu s.s. brottvísun úr skóla.

Skólareglur þessar voru samþykktar í skólaráði 28. janúar 2004,
breyting samþykkt í 4. gr. 7. febrúar og breyting samþykkt í skólaráði 30. ágúst. 2011.
Endurskoðað og samþykkt í skólaráði 25.01.2013.
Breytt á þriðju grein samþykkt í skólaráði 28. ágúst 2013.
Breyting á sjöundu og áttundu grein samþykkt 23. okt. 2013.
Breyting á annarri og fimmtu grein samþykkt 25. jan. 2017.