Lýsing
Nemendur læra að vinna með stærðartöflur, grunnsnið og sniðútfærslur. Lögð er áhersla á saumtækni með ýmsum gerðum af prufusaumi og læsi á vinnulýsingar í texta og myndum. Farið er sérstaklega í notkun á saumavélum, overlockvélum og straujárni. Unnið er með samspilið á milli tískuteikninga, flatra vinnuteikninga og sniðútfærslna. Kennd er tenging sniða og efna varðandi teygjanleg og föstofin efni. Nemendur læra að mæla efnismagn fyrir flíkur út frá sniðum og notkun á flísilíni, tvinnagerðum og öðru tilleggi varðandi saumaskap og frágang. Saumaðar eru 1-2 flíkur og lögð áhersla á mátun og leiðréttingu sniða. Nemendur tileinka sér skipulagt vinnuferli og vandaðan frágang og læra uppsetningu vinnulýsinga, tískuteikninga og flatra vinnuteikninga.