Skólareglur

Skólareglur Fjölbrautaskólans í Garðabæ

  1. gr. Gagnkvæm virðing, kurteisi, heiðarleiki og ábyrgð skulu ríkja í samskiptum nemenda og starfsfólks.

  2. gr. Skylt er að sækja allar kennslustundir stundvíslega. Veikindi skal tilkynna alla veikindadaga fyrir kl.11 samdægurs.

  3. gr. Vinnufriður skal ríkja í skólanum. Nemendur skulu mæta undirbúnir í kennslustundir, vera virkir og lúta verkstjórn kennara. Kennurum er heimilt að vísa nemendum úr tíma valdi þeir ítrekuðu ónæði. Símar og önnur raftæki eru bönnuð nema í tengslum við kennslu og úrvinnslu og í samráði við kennara.

  4. gr. Nemendur og starfsfólk skulu fara vel með muni skólans, ganga vel um húsnæði og lóð hans og gæta fyllsta hreinlætis innan dyra jafnt sem utan. Neysla matvæla er almennt ekki heimil í kennslustofum né í bókasafni skólans. Heimilt er að hafa með sér lokuð drykkjarílát í kennslustundir.

  5. gr. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er tóbakslaus skóli. Allar tegundir tóbaksnotkunar eru bannaðar í skólanum og á lóð hans.

  6. gr. Í skólanum, á samkomum eða í ferðalögum á vegum skólans skulu nemendur ekki hafa um hönd áfengi eða önnur vímuvaldandi efni né vera undir áhrifum þeirra.

  7. gr. Myndatökur og/eða upptökur af nemendum, kennurum og öðru starfsfólki innan skólans eru óheimilar án leyfis viðkomandi aðila.

  8. gr. Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur og gæta þess að varpa ekki rýrð á heiður hans.

Afleiðing brota á þessum reglum geta verið t.d. brottvísun úr skóla. Hægt er að vísa nemanda fyrirvaralaust tímabundið úr skóla stafi öðrum ógn eða hætta af honum.

Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 4.01.2023

Endurskoðað og samþykkt í skólaráði 5.01.2022.

Skólasókn

  1. Sækja skal allar kennslustundir stundvíslega.

  2. Komi nemandi of seint í tíma fær hann skráða á sig seinkomu. Séu liðnar 15 mín. af kennslustund þegar nemandi mætir fær hann skráða á sig fjarvist.

  3. Veikindi, samfellt í tvo daga eða skemur, lækka skólasóknarprósentu nemenda.

  4. Veikindi skal tilkynna í INNU hvern veikindadag fyrir kl. 11:00 og staðfesta skriflega ef um veikindi lengur en tvo daga er að ræða. Staðfestingin skal undirrituð af foreldri, öðrum forráðamanni eða lækni ef neminn býr enn í foreldrahúsum – og gildir þá einu þótt hann sé orðinn 18 ára. Ef það gengur ekki þarf annan fullorðinn einstakling til að votta veikindin. Ekki er hægt að skrá veikindi sem vara skemur en heilan skóladag.

  5. Þrálát og/eða langvinn veikindi skal staðfesta með læknisvottorði sem skilað er á skrifstofu skólans. Slík vottorð skal endurnýja á hverju skólaári.

  6. Skólasókn, að frádregnum staðfestum veikindum ( þ.e. umfram tvo fyrstu daga veikinda), skal vera 87% hið minnsta. Að öðrum kosti eiga nemendur ekki visa skólavist á næstu önn. Sé skólasókn undir 87% í lok annar getur skólinn ákveðið að bjóða nemendum skólasóknarsamning á næstu önn með skilyrðum um betri skólasókn en almennar reglur segja til um. Sé skólasókn ábótavant er veitt skrifleg áminning.

  7. Fari skólasókn niður fyrir 85% má vísa nemandanum úr skóla.

  8. Ein fjarvist jafngildir einu fjarvistarstigi.

  9. Seinkoma jafngildir 0,5 fjarvistarstigum.

  10. Einkunnir fyrir skólasókn:

97,5 – 100% = 10 ein eining
95,5 – 97,4% = 9 ein eining
93,5 – 95,4% = 8
90,5 – 93,4% = 7
88,5 – 90,4% = 6
86,5 – 88,4% = 5
84,5 – 86,4% = 4
81,5 – 84,4% = 3
79,5 – 81,4% = 2
<79,4% = 1

  • Nemendur sem stríða við langvinn veikindi þurfa að skila læknisvottorði á hverju skólaári. Ef veikindi leiða til mikilla fjarvista þannig að raunmæting fari niður fyrir 80% verður skólasóknareinkunn S (staðið).

  • Tekið er sérstakt tillit til þrálátra veikinda. Einnig er tekið sérstakt tillit til nemenda sem verða mikið veikir eða þurfa að fara oft til læknis. Það er fólgið í því að nemendur geti sótt um niðurfellingu veikinda í síðustu kennsluviku annar þannig að skólasókn þeirra verði endurskoðuð með tilliti til skráðra veikinda og/eða læknisheimsókna. Þetta er eingöngu gert ef skólasókn nemenda er að öðru leyti óaðfinnanleg. Miðað er við að gengið sé frá öllum málum varðandi skólasókn við lok viðkomandi annar.
  • Mjög mikilvægt er að nemendur og forráðamenn fylgist vel með mætingum til að komast hjá því að fá áminningu, brottvísun og/eða höfnun á skólavist á næstu önn. Nemandi sem ekki nær 87% skólasókn á ekki vísa skólavist á næstu önn. Nemanda sem mætir minna en 85% er heimilt að vísa úr skóla.
  • Allir forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fá aðgang að upplýsingakerfinu INNU. Þar er tækifæri til að fylgjast með skólasókninni og mikilvægt að hafa samband við skólann sem fyrst ef eitthvað er óljóst.
  • Nemendur sem mæta vel geta unnið sér inn námseiningar. Nemendur sem fá 9 eða 10 í skólasókn fá eina einingu á önn, að því tilskildu að raunmæting sé yfir 89%, sem fer í val á öllum námsbrautum. Nemandi sem mætir mjög vel fær þannig einingar í val fyrir það eitt að mæta; auk þess sem hann nær líka oftast betri árangri í námi. Nemandi getur að hámarki fengið 9 einingar fyrir skólasókn á námsferli sínum.
  • Ef nemendur þurfa leyfi frá kennslustundum skal sækja um það til skólaráðs. Leyfi vegna keppni eða ferðar á vegum íþróttafélags er veitt ef staðfesting frá þjálfara liggur fyrir. Ef nemendur þurfa leyfi vegna annarra ferða er það skoðað og síðan afgreitt í lok annar á þann hátt að ef skólasókn er óaðfinnaleg að öðru leyti er leyfið veitt í flestum tilfellum, þó aldrei fleiri en fimm skóladaga á önn.
  • Leyfi vegna jarðarfara og kistulagningar er veitt eftir að fyllt hefur verið út eyðublað þar að lútandi sem fæst á skrifstofu skólans.

  • Skili nemandi inn staðfestingu á fjarvist sinni t.d. ef hann fer til tannlæknis, í ökupróf eða sjúkraþjálfun fær hann skráða útskýrða fjarvist (T) þar sem fram kemur ástæða fjarvistar.
  • Ef nemendur vilja gera athugasemd við fjarvistaskráningu sína verða þeir að koma henni skriflega til viðkomandi kennara sem leiðréttir ef þörf krefur. Ekki er hægt að leiðrétta fjarvistir lengra aftur í tímann en sem nemur tveimur vikum og gildir þá einu hvort komið er með vottorð eða ekki.


Skólasókn og námsárangur fylgjast að.


Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 5.01.2022.

Skráning nemenda

  1. Allir nemendur, sem fengið hafa skólavist, eru skráðir sem virkir nemendur í
    skráningarkerfi skólans í byrjun hverrar annar.

  2. Frestur til að breyta um áfanga annars vegar og hins vegar til að segja sig úr áföngum er auglýstur í byrjun hverrar annar.

    Að fresti loknum fjalla áfangastjóri og námsráðgjafar um einstaka tilfelli sem gefa tilefni til breytingar á skráningu nemenda í einstaka áfanga.

  3. Forráðamenn skulu staðfesta úrsögn nemenda (undir 18 ára aldri) úr einstökum áföngum og einnig úrsögn úr skóla.

  4. Nemendur, sem hverfa frá námi eða er vísað úr skóla, eru gerðir óvirkir í skráningarkerfi skólans.


Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 5.01.2022.

Próf

  1. Nemendur skulu mæta stundvíslega í próf og kynna sér á auglýsingatöflu í anddyri skólans í hvaða stofu þeir eiga að taka prófið.
  2. Próftími er 90 mínútur. Nemendur hafa heimild til þess að sitja aukalega 30 mínútur í hverju prófi. Nemandi sem kemur of seint til prófs fær ekki framlengdan próftíma. Ekki er heimilt að skila úrlausnum fyrr en próftími er hálfnaður og eftir þann tíma fær enginn að hefja prófið.
  3. Nemendur eiga að hafa persónuskilríki með mynd með sér í öll próf og láta þau liggja á borðinu meðan á próftöku stendur.
  4. Nemendur eiga að leggja strax í upphafi á borð sitt þau áhöld sem þeir þurfa á að halda í prófinu. Allt annað m.a. pennaveski og annað dót skal geymt annars staðar.
  5. Farsímar og önnur snjalltæki sem ekki eru tilgreind sem leyfileg hjálpargögn eru bönnuð.
  6. Kennarar áfangans sem prófað er úr koma a.m.k. tvisvar í hverja stofu. Nemendum er ekki heimilt að kalla sérstaklega til kennara.
  7. Verði nemandi uppvís að svindli í prófi verður honum tafarlaust vísað úr prófi og telst nemandinn fallinn í áfanganum.

 

Færsla á lokaprófum í próftöflu:
Nemendur með tvö eða fleiri próf á sama degi geta fært próf á sjúkraprófstíma (sjá á próftöflu). Tilkynningar um það þurfa að hafa borist skrifstofu fyrir auglýstan tíma. Sé það gert seinna þarf að greiða 2.200 krónur. Fyrir annan prófaflutning þarf að greiða 2.200 krónur.

Lokaeinkunnir:
Þegar lokaeinkunnir hafa verið birtar í lok annar er auglýstur tími þar sem nemendum gefst kostur á að skoða prófúrlausnir sínar og/eða fá frekari útskýringar á námsmati hjá kennara.

 

Endurskoðað og samþykkt í skólaráði 5.01. 2022.

Veikindi

Reglur um veikindi og veikindatilkynningar

Veikindi, samfellt í tvo daga eða skemur, lækka skólasóknarprósentu nemenda.

Veikindi skal tilkynna fyrir kl. 11 í Innu hvern veikindadag og staðfesta skriflega ef um veikindi lengur en tvo daga er að ræða.
Staðfestingin skal undirrituð af forráðamanni eða lækni ef neminn býr enn í foreldrahúsum – og gildir þá einu þótt hann sé orðinn 18 ára. Ef það gengur ekki þarf annan fullorðinn einstakling til að votta veikindin. Skila skal staðfestingu innan þriggja daga frá því að veikindum lýkur. Eyðublað til staðfestingar veikindum fæst á skrifstofu og heimasíðu skólans.

Veikindi á námsmatsdag
Tilkynna þarf veikindin samdægurs símleiðis og skila staðfestingu frá forráðamanni innan þriggja daga.

Veikindi í lokaprófi:
Tilkynna þarf veikindin samdægurs símleiðis og skila staðfestingu frá forráðamanni í sjúkraprófi.


Nemendur geta sótt um niðurfellingu veikinda í síðustu kennsluviku annar þannig að skólasókn þeirra verði endurskoðuð með tilliti til skráðra veikinda og eða læknisheimsókna. Þetta er eingöngu gert ef skólasókn nemanda er að öðru leyti óaðfinnaleg.


Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 15.03. 2023.

Langtímavottorð

Nemendur sem stríða við langvinn veikindi þurfa að skila læknisvottorði á hverju skólaári. Tekið er sérstakt tillit til þrálátra veikinda.

Sömu reglur um tilkynningar vegna veikinda gilda fyrir nemendur með langtímavottorð þ.e. tilkynna þarf daglega með skráningu í INNU fyrir kl. 11:00 og taka fram að viðkomandi sé með langtímavottorð í athugasemdum.

Skráningin kemur sem W í INNU.

Langtímavottorð gildir eingöngu fyrir þann sjúkdóm sem það er gefið út fyrir. Önnur veikindi eru tilkynnt sem slík (t.d. flensa).

Ef nemandi þarf að fara heim úr skóla á miðjum degi skal hann koma við á skrifstofu og skrá veikindi á sérstöku eyðublaði. Ef nemandi hefur ekki tök á því þarf hann að gera það sem fyrst. Ekki verður tekið við skráningum eldri en 3ja daga.


Endurnýja þarf langtímavottorð á hverju skólaári.


Endurskoðað og samþykkt í skólaráði 5.01.2022.

Eyðublað fyrir veikindatilkynningar

Langtímavottorð - staðfesting á veikindum

Mat / stöðupróf á erlendri tungumálakunnáttu

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ býður upp á stöðupróf fyrir nemendur sína í þeim tungumálum sem kennd eru við skólann. Uppfylla þarf a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum til þess að geta sótt um að taka stöðuprófin: að viðkomandi sé tvítyngdur, hafi verið búsettur erlendis í ákveðinn tíma eða verið skiptinemi erlendis. Ef nægjanleg gögn liggja fyrir er mögulegt að nemandinn sé metinn beint, þó aldrei meira en 15 einingar.

Í ensku eru metnar að hámarki 10 einingar á öðru þrepi úr stöðuprófum.

  • Sækja þarf um stöðupróf til skólaráðs.

  • Próftaka fer fram fyrsta námsmatsdag haustannar.

  • Greiða verður fyrir prófið á skrifstofu skólans a.m.k. viku fyrir próftöku, sjá gjaldskrá FG.

  • Ef ekki er greitt fyrir prófið á réttum tíma er nemandi sjálfkrafa tekinn af lista yfir þá sem skráðir eru í stöðupróf.


Endurskoðað og samþykkt í skólaráði 04.01.2023

Tölvubúnaður

Tölvubúnaður Fjölbrautaskólans í Garðabæ er eign skólans og einungis ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annarra þátta er samræmast markmiðum skólans.

Skólanum er ekki unnt að gera ýtrustu kröfur um öryggi, eins og þær þekkjast í tölvuvinnslu en notendum er treyst til þess að virða þær reglur sem hér fylgja.

Nemendur, sem eru að vinna verkefni vegna náms, hafa forgang í tölvur skólans.

Handhafi notendanafns í tölvukerfi skólans er ábyrgur fyrir allri notkun þess.

Óleyfilegt er:

  • Að veita öðrum aðgang að notandanafni sínu.
  • Að reyna að tengjast tölvubúnaði skólans með öðru notandanafni en því sem notandi hefur fengið úthlutað.
  • Að nota aðgang að neti skólans til þess að reyna að komast ólöglega inn á net eða tölvur í eigu annarra.
  • Að sækja, senda, geyma eða nota á neti skólans forrit sem hægt er að nota til innbrota eða annarra skemmdarverka.
  • Að breyta vinnuumhverfi á tölvum skólans þannig að það hafi áhrif á umhverfi og notkunarmöguleika annarra notenda.
  • Að breyta, afrita eða fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða gögn sem eru í eigu skólans.
  • Að afrita hugbúnað eða gögn í eigu annarra án leyfis eiganda.
  • Setja inn hugbúnað á tölvur skólans án samþykkis kerfisstjóra.
  • Að senda, sækja eða geyma klámefni eða ofbeldisefni.
  • Að senda keðjubréf og annan ruslpóst.
  • Að nota leiki í tölvunum aðra en þá sem fylgja Windows kerfinu.
  • Að hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp í gegnum netið nema það sé lagt fyrir sem námsefni af kennara.
  • Meðferð hvers konar matvæla er bönnuð í tölvuverum skólans.

Að öðru leyti er vísað til notkunarskilmála ISnets og notkunarreglna Íslenska menntanetsins. Notendur kerfisins skulu að kynna sér þessar reglur þar sem þeir eru ábyrgir samkvæmt þeim.

Brot á þessum reglum geta leitt til lokunar á aðgangi að tölvum skólans og - sé um alvarlegt eða endurtekið brot að ræða - brottvísunar úr skóla.

 

Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 15.01.2013.

Umgengni

Umgengnisreglur fyrir forystufólk félagslífs í FG

  1. Ganga skal snyrtilega og vel um húsnæðið. Forystumenn félagslífs eiga að vera öðrum nemendum fyrirmynd.

  2. Nemendum, sem fengið hafa lykla að húsinu, er óheimilt að lána þá öðrum.

  3. Þjófavarnakerfi hússins fer í gang á mismunandi tímum á ákveðnum svæðum í húsinu. Forystumenn félagslífs kynni sér málið vel.

  4. Heimilt er að hengja upp auglýsingar á auglýsingatöflur í skólanum svo og á veggi á 1. hæð þó ekki í matsal nemenda. Á öðrum stöðum er óheimilt að hengja upp auglýsingar.

  5. Tilkynna skal húsverði um starfsemi á kvöldin og um helgar.

  6. Skrifstofa skólans veitir aðstoð þegar um viðamikla fjölföldun er að ræða.


Endurskoðað og samþykkt í skólaráði 5.01. 2022.

Dansleikir

Reglur um skóladansleiki á vegum Fjölbrautaskólans í Garðabæ

  • Skóladansleikir eru haldnir á ábyrgð skólameistara og undir umsjón skólameistara og skólaráðs.

  • Skóladansleikir eru auglýstir í FG og á samfélagsmiðlum.
  • Aðgöngumiðar skulu númeraðir og skráð hverjir kaupa miða og fyrir hvern. Lista með nöfnum gesta með kennitölum þeirra og símanúmerum skal skila til félagsmála- eða forvarnafulltrúa áður en dansleikur hefst.
  • Nemendur í NFFG mega bjóða að hámarki með sér tveimur gestum sem ekki eru nemendur í skólanum, í samræmi við ákvarðanir hverju sinni. Nemendur í NFFG njóta forgangs við kaup á miðum.
  • Engar vínveitingar eru leyfðar á skóladansleikjum né meðferð áfengis og annarra vímuefna.
  • Nemendum, sem koma undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, er ekki hleypt
    inn á dansleiki skólans. Ölvun ógildir miða.
  • Starfsmenn skólans hafa samstundis samband við heimili þeirra nemenda, undir 18 ára, sem þarf að hafa afskipti af vegna áfengis eða annarra vímuefna.
  • Þurfi starfsmenn að hafa afskipti af nemanda sem er undir áhrifum á skóladansleik
    munu félags- og forvarnafulltrúi taka mál hans til meðferðar svo skjótt sem auðið
    verður. Afleiðingin getur verið viðvörun og/eða takmörkun þátttöku nemanda í félagslífi skólans.
  • Umsjón með gæslu er í höndum félagsmála- og forvarnafulltrúa.
  • Skóladansleikir eru leyfðir til kl. 01.00. Hætt er að hleypa inn kl. 23.00.
  • Sameiginlegir skóladansleikir með öðrum skólum eru ekki leyfðir.
  • Skóladansleikir utan höfuðborgarsvæðisins eru ekki leyfðir.
  • Skóladansleiki má halda í Urðarbrunni með samþykki skólaráðs.
  • Skóladansleikir á vegum NFFG eru tóbaks- og veiplausir.



Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 5.01.2022

Nemendaferðir

Reglur um nemendaferðir á vegum Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

  • Nemendaferðir, sem skipulagðar eru á vegum skólans, eru á ábyrgð skólameistara og undir umsjón skólameistara og fararstjóra.
  • Skólameistari ræður fararstjóra í nemendaferðir.

  • Skipulögð ferðaáætlun og dagskrá skal liggja fyrir áður en skólameistari veitir leyfi fyrir ferðinni.

  • Fararstjóri skal ganga úr skugga um að samið sé við viðurkennda aðila þegar bókuð er gisting og eða rútuferð.

  • Forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri skulu veita skriflegt leyfi vegna ferðar.
  • Nemendaferðir eru eingöngu fyrir skráða nemendur skólans. Ekki er heimilt að taka með sér gesti utan skólans.
  • Nemendaferðir eru eingöngu auglýstar í FG.
  • Nemendum ber að hlíta fyrirmælum fararstjóra.
  • Ákvæði um nemendaferðir í skólareglum FG gilda (sbr. 6 gr.).
  • Fararstjóri getur sent nemendur heim á þeirra kostnað ef um alvarleg brot er að ræða.
  • Nemendur skulu greiða sinn hlut ferðarinnar áður en lagt er af stað í ferðina.


Endurskoðað og samþykkt í skólaráði 5.01.2022

Vímuefni

Skólinn er reyklaus með öllu. Nemendum og starfsmönnum er óheimilt að reykja í húsnæði skólans og á skólalóð. Þetta á við um allar tegundir tóbaksnotkunar, svo sem sígarettureykingar, munntóbaksnotkun og rafrettureykingar.

Nemendum er stranglega bannað að neyta áfengis eða annarra vímuefna eða vera undir áhrifum þess í húsnæði skólans og á skólalóð. Afleiðing brots á þessu ákvæði getur verið brottvísun úr skóla.

Á skólaskemmtunum og ferðalögum í nafni skólans ber nemendum að sýna góða hegðun. Ósæmileg hegðun, svo sem ölvun, getur varðað brottvísun úr skóla og ber skólaráði að fjalla um öll slík mál.

Öllum alvarlegri málum, svo sem sölu eða milligöngu um sölu áfengis, sölu eða
dreifingu ólöglegra fíkniefna er umsvifalaust vísað til lögreglu. Skólameistari ákveður
hvort nemanda sé vísað úr skóla á meðan rannsókn fer fram.

Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 4.01.2023
Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 5.01.2022.

Barnaverndarnefnd

Verklag um tilkynningarskyldu starfsmanna Fjölbrautaskólans í Garðabæ
til barnaverndarnefnda

Í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga nr. 80/2002 og í samræmi við verklagsreglur um tilkynningarskyldu, útg. 18.12.2006 ber starfsmönnum skólans að tilkynna skólameistara, aðstoðarskólameistara, áfangastjóra eða náms- og starfsráðgjafa verði þeir varir við að barn í hópi nemenda skólans:

  • búi við óviðunandi uppeldisskilyrði
  • verði fyrir áreitni eða ofbeldi
  • stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu

Skólameistari tekur ákvörðun um framgang máls í samráði við aðstoðar­skóla­meistara, áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa.


Endurskoðað og breytingar samþykktar í skólaráði 5.01.2022.