- Hlutverk skólans og stefnuskrá
- Skipurit skólans, starfsmenn og skipulag náms
- Markmið
- Sjálfsmat
- Stefna í einsökum málaflokkum
- Forvarnarstefna
- Heilsustefna
- Jafnréttisáætlun
- Nemendur með annað móðurmál en íslensku
- Persónuverndarstefna
- Stefna og viðbragðsáætlun í eineltismálum
- Starfsmannastefna
- Umhverfis/Samgöngustefna
- Viðbragðsáætlun FG
- Umgjörð og skipulag
- Staðnám
- Námsannir
- Kennslustundir
- Námsáætlanir
- Stundatöflur nemenda
- Námsferilsáætlun og val
- Fjarnám
- Námslok
Hlutverk skólans og stefnuskrá
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ var formlega stofnaður 1. ágúst 1984. Skólinn starfar eftir lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 en þar segir í 2. grein:
Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.
Skólinn starfar að Skólabraut 6 í glæsilegri byggingu. Lóð skólans svo og lækurinn sem rennur um hana eru prýði skólans, lögð er áhersla á að lóðin sé þrifin reglulega. Ljóst er að byggingin er orðin of lítil og brýnt að hefja viðbyggingu sem fyrst. Þeirri viðbyggingu er ætlað að hýsa listnámið og um leið mun sérnámsbrautin fá aukið rými. Leitast er við að bjóða upp á árangursríka kennslu og fyrsta flokks búnað.
Skipurit skólans, starfsmenn og skipulag náms
Á heimasíðu Fjölbrautaskólans í Garðabæ eru allar upplýsingar um skipurit, skóladagatal, starfsfólk skólans og stjórnendur, skólanefnd, skólaráð, skólareglur og stefnuskrá. Einnig má finna upplýsingar um þá þjónustu sem nemendum stendur til boða svo og allt sem viðkemur náminu.
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ starfar eftir áfangakerfi. Skólaárinu er skipt í þrjár námsannir, haustönn, miðönn og vorönn. Upphaf þriggja anna kerfisins var haustönn 2019. Námsefni hverrar námsgreinar er skipt niður í afmarkaða áfanga sem kenndir eru eina önn og lýkur með námsmati í annarlok. Kröfur um námsárangur og ástundun eru tilgreindar í kennsluáætlun hvers áfanga og þurfa nemendur að standast lágmarks námskröfur til að ljúka áfanga og geta þar með haldið áfram í næsta áfanga á eftir í sömu námsgrein. Í upphafi skólagöngu er nýnemum raðað í áfanga á eftir brautarvali þeirra og námsárangri á grunnskólaprófi. Seinna velja nemendur sjálfir námsáfanga undir stjórn umsjónarkennara. Áhersla er lögð á að nemendur læri strax í upphafi að skipuleggja nám sitt í samræmi við kröfur þeirrar brautar sem þeir eru á. Öflugt umsjónarkerfi og markviss námsráðgjöf eru lykilþættirnir í því starfi. Mikilvægt er að nemendur séu meðvitaðir um námsframvindu sína og taki ábyrgð á henni.
Boðið er upp á 7 stúdentsbrautir sem sumar skiptast niður á mismunandi svið: alþjóðabraut (alþjóðasamskiptasvið, menningarsvið, viðskiptasvið); félagsvísindabraut; hönnunar- og markaðsbraut; íþróttabraut; listnámsbraut (fata- og textílhönnunarsvið, leiklistarsvið, myndlistarsvið, tónlistarsvið); náttúrufræðibraut (heilbrigðissvið, tæknisvið) og viðskiptabraut. Auk þess er boðið upp á styttri námsbrautir, menntabraut og framhaldsskólabraut, og sérnámsbraut fyrir nemendur með sérþarfir.
Með lögum um framhaldsskóla frá 2008 verða töluverðar breytingar á uppbyggingu námsins. Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er fjallað um þá sex þætti grunnmenntunar sem eru leiðarljós í þeim brauta- og áfangalýsingum sem skólinn býður upp á. Grunnþættir menntunar eru:
✓ læsi,
✓ sjálfbærni,
✓ heilbrigði og velferð,
✓ lýðræði og mannréttindi,
✓ jafnrétti,
✓ sköpun.
Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir framhaldsskóla. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu, svo sem í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og um áherslur í stefnu um sjálfbæra þróun. Tillit er tekið til alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að, svo sem barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnu alþjóðlegra stofnana sem Ísland er aðili að. Við mörkun stefnunnar sem birtist í skilgreiningu grunnþáttanna er einnig höfð hliðsjón af hugmyndum um fagmennsku kennara og reynslu úr þróunarstarfi í framhaldsskólum í landinu.
Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það. Unnið er bæði að samfélagslegum markmiðum og markmiðum er varða menntun sérhvers einstaklings. Grunnþættirnir eru samfélagsmiðaðir þar sem þeim er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti og lýðræði og að vinna að því að samfélagið fái vel menntað og heilbrigt fólk. Grunnþáttunum er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi. Þegar skólastarf er metið þarf að skoða hvernig grunnþættirnir setja mark sitt á kennslu og nám.
Hugmyndirnar að baki grunnþáttunum eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir eru sýnilegir í skólastarfinu og koma m.a. fram í efnisvali og inntaki náms, starfsháttum og vinnubrögðum kennara og annarra. Grunnþættirnir tengjast innbyrðis í menntun og skólastarfi og eru háðir hver öðrum. Þeir byggja á þeirri hugmynd að ekki geti orðið virkt lýðræði án læsis á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins. Virkt lýðræði þrífst aðeins ef jafnframt er stuðlað að hvers konar jafnrétti milli einstaklinga og hópa í samfélaginu. Mannréttindi allra verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð hvers og eins og baráttu gegn mismunun og hvers konar ofbeldi, þar með töldu einelti.
Öllu námi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er skipt upp í fjögur þrep. Kröfur eru stigvaxandi eftir þrepum og samsetning stúdentsprófsins krefst þess að rétt hlutfall þarf að vera á milli þrepa:
1. þrep 24 – 47 einingar
2. þrep 47 – 70 einingar
3. þrep 24 – 47 einingar
4. þrep 0 – 14 einingar
Áföngum eru gefin lýsandi heiti sem byggjast upp á eftirfarandi hátt:
✓ Fyrstu fjórir bókstafirnir segja til um námsgreinina. Dæmi: LÍFF = líffræði
✓ Þá kemur einn tölustafur sem segir til um hæfniþrep. Dæmi: 2 = 2. þrep
✓ Næstu tveir bókstafir eru lýsandi fyrir áherslur í áfanganum. Dæmi: LE = lífeðlisfræði
✓ Í lokin eru tveir tölustafir sem tilgreina einingafjölda áfangans. Dæmi: 05 = 5 einingar
Allir áfangar skólans innihalda lykilhæfniþætti og grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá. Áfangalýsingar hafa hæfnimarkmið sem er skipt upp í þekkingu, leikni og hæfni. Nánar verður vikið að þessum atriðum síðar.
Markmið
Meginmarkmið Fjölbrautaskólans í Garðabæ er að bjóða upp á nám sem stuðlar að alhliða þroska nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir frekara nám og að taka virkan þátt í lýðræðisþjóð-félagi. Hugað er sérstaklega að námsframboði, nútímalegum kennsluháttum, bóklegu námi og listnámi, námi á íþróttabraut, sérnámsbraut og fjarnámi. Skólinn lítur til nærumhverfisins og vill vera hluti þess.
Skólinn starfar í þeim anda að:
• vera framsækinn og vel rekinn framhaldsskóli sem leggur áherslu á fagmennsku og jákvæðni,
• bjóða upp á fjölbreytt og gott nám, bæði bóklegt og verklegt, og búa nemendur þannig undir frekara nám,
• hvetja nemendur til stöðugrar þekkingarleitar og þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum,
• auka víðsýni nemenda, efla frumkvæði þeirra og þjálfa þá í gagnrýninni og skapandi hugsun,
• efla ábyrgðarkennd nemenda, sjálfstraust þeirra, sjálfsmynd, háttvísi og umburðarlyndi,
• þjálfa nemendur í að njóta menningarlegra verðmæta,
• stuðla að því að nemendur temji sér heilbrigðan lífsstíl,
• vera hluti af nærsamfélaginu og gegna ákveðnu forystuhlutverki er kemur að málefnum ungmenna,
• vera góður og eftirsóknarverður vinnustaður fyrir nemendur og starfsmenn þar sem virðing, jafnrétti og umburðarlyndi ríkir.