Foreldravísir

SKÓLASTJÓRNENDUR

Skólameistari Kristinn Þorsteinsson kristinn@fg.is
Aðstoðarskólameistari   Anna María Gunnarsdóttir  amg@fg.is
Áfangastjóri  Kristín Helga Ólafsdóttir  kho@fg.is
Verkefnastjóri  Guðmundur S. Gíslason gudmundurg@fg.is


Skólastjórnendur eru með skrifstofur til hægri þegar komið er inn í skólann.

SKRIFSTOFAN

Skrifstofa skólans er opin milli 8:00 og 15:30 alla virka daga.

Starfsmenn skrifstofunnar eru Hrafnhildur Guðmundsdóttir og Hlédís Þorbjörnsdóttir.

Netfang skrifstofunnar er fg@fg.is og síminn 520-1600.

Heimasíða FG er www.fg.is

KENNARAR

Netföng kennara og annarra starfsmanna eru á heimasíðu skólans www.fg.is undir starfsfólk.

NÁMSRÁÐGJÖF

Við skólann starfa tveir náms- og starfsráðgjafar í fullu starfi. Þeir hafa aðsetur á A-gangi skólans. Hægt er að panta tíma hjá þeim með tölvupósti. Hlutverk þeirra er að veita nemendum aðstoð í málum sem tengjast námi þeirra, náms- og starfsvali og lífinu almennt. Náms- og starfsráðgjafar standa vörð um velferð nemenda og eru málsvarar þeirra og trúnaðarmenn og bundnir þagnarskyldu. Þeir þurfa þó að rjúfa trúnað ef velferð nemanda er stefnt í hættu. Náms- og starfsráðgjöfum er óheimilt að veita forráðamönnum upplýsingar um nemendur sem eru 18 ára og eldri nema með skriflegu leyfi þeirra. Nemendur með námsörðugleika þurfa að ræða við námsráðgjafa og senda inn greiningar eða staðfestingu til námsráðgjafa á rafrænu formi í upphafi fyrstu annar til þess að hægt sé að veita þá þjónustu sem í boði er.

Náms– og starfsráðgjafar skólans eru:

SAMÞÆTTING ÞJÓNUSTU FYRIR BÖRN

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi þann 1. janúar 2022. Tilgangur lagasetningarinnar var að auka samstarf þjónustuaðila í þágu farsældar barna og tryggja að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að þjónustu við hæfi án hindrana.

Í lögunum kemur fram að allir nemendur undir 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra geta leitað til tengiliðs innan skólans sem leiðbeinir um samþættingu þjónustu sem born eiga rétt á. Tengiliður bendir á leiðir og vísar áfram eftir því sem þörf krefur. Þá geta foreldrar og börn, með aðstoð tengiliðar lagt fram beiðni um samþættingu þjónustu. svo vandi barns verði leystur. Enn fremur getur tengiliður óskað eftir málstjóra samþættingar hjá félagsþjónustu sveitarfélags.

Námsráðgjafar FG eru tengiliðir vegna farsældarþjónustu.

Kynningarmyndband um samþættingu þjónustu.

UMSJÓNARKENNARAR

Hver nemandi er með umsjónarkennara og mætir í umsjónartíma reglulega. Umsjónarkennarar veita nemendum aðhald varðandi mætingar, aðstoða við gerð námsferla og veita nemendum mikilvægar upplýsingar um skólastarfið.

INNA

Inna er rafrænt upplýsingakerfi fyrir nemendur og geymir m.a. upplýsingar um stundatöflu nemenda, skólasókn, einkunnir og einingafjölda. Kennarar setja námsáætlanir, námsmat, verkefni, glósur og heimavinnu inn á INNU. Það er nauðsynlegt fyrir nemendur að skoða INNU á hverjum degi. Gott getur verið fyrir forráðamenn að minna börn sín á INNU og mikilvægt er að fylgjast vel með viðveru /mætingu þeirra. Fyrir kemur að nemendur missa tökin á mætingu sinni á fyrsta ári í framhaldsskóla, því er mikilvægt að veita þeim aðhald varðandi góða skólasókn og gegnir forráðafólk þar lykilhlutverki.

SMIÐJA

Öllum nemendum er boðið upp á smiðjutíma í flestum námsgreinum. Smiðjutímar eru á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum milli kl. 10.30 og 11.10. Smiðjutímarnir eru fjórir og koma fram á stundatöflu nemenda. Í smiðju gefst nemendum kostur á að fá frekari aðstoð við nám sitt í fámennari hópum. Fagkennari er til staðar og leiðbeinir hverjum og einum nemanda með þá þætti sem hann þarf aðstoð með. Í smiðju geta nemendur unnið heimavinnu, verkefni og/eða annað sem óljóst er í hverjum áfanga fyrir sig undir leiðsögn kennara.

Hverjum og einum nemanda er frjálst að mæta í smiðju þegar honum hentar en skólinn hvetur alla nemendur til að nýta sér þetta góða aðgengi að kennurum til að ná enn betri árangri í námi.

Kennarar geta boðað nemendur í smiðjur til að vinna að sér stökum verkefnum og tilkynna þeir það jafnóðum.

FARTÖLVUR

Í skólanum er lögð áhersla á upplýsingatækni og fjölbreytta kennsluhætti og gert er ráð fyrir því að nemendur séu með fartölvur eða spjaldtölvur í skólanum. Á bókasafni skólans eru tölvur til útláns sem hægt er að fá lánaðar í neyðartilvikum innan dagsins.

BÓKASAFN

Bókasafn skólans er opið alla daga frá klukkan 8 til 16. Þær Anna Björg Sveinsdóttir og Guðný Guðnadóttir bókasafnsfræðingar veita fjölþætta og persónulega þjónustu um safnið.

MÖTUNEYTIÐ

Í mötuneyti skólans er boðið upp á fjölbreyttan mat á sanngjörnu verði. Hægt er að nálgast verðskrá mötuneytisins á heimasíðu skólans. Nemendum stendur til boða að fá frían hafragraut í frímínútum klukkan 10:15 en þeir þurfa að koma með ílát/skál/krukku að heiman. Einnig er hægt að kaupa klippikort á afar sanngjörnu verði.

SKÁPAR

Hægt er að fá skápa á leigu á skrifstofu skólans. Nemendur þurfa sjálfir að koma með lás.

SKÓLASÓKN

Skólasókn nemenda er mjög mikilvæg. Skólasókn reiknast til einkunnar í flestum námsáföngum. Nemendur með einkunnina 9 og 10 í skólasókn fá eina einingu fyrir.

Tilkynna þarf öll veikindi á Innu fyrir klukkan 11 samdægurs.

Ef veikindi vara lengur en tvo daga skal staðfesta þau skriflega af forráðamanni og skila á skrifstofu skólans. Fyrstu tveir dagarnir teljast fjarvistir en eftir það fær nemandinn ekki fjarvistastig. Ein fjarvist jafngildir einu fjarvistastigi og seinkoma jafngildir hálfu fjarvistastigi.

Þrálát eða langvinn veikindi skal staðfesta með læknisvottorði á skrifstofu skólans.

Endurnýja þarf vottorð fyrir hvert skólaár.

Frekari upplýsingar um skólasókn er að finna á heimasíðu skólans undir reglur um skólasókn. Einnig er hægt að hafa samband við stjórnendur eða náms– og starfsráðgjafa. Nemandi sem þiggur skólavist hefur um leið undirgengist að virða skólareglur og stunda námið vel.

NFFG

Nemendafélag FG heitir NFFG. Nemendafélagið sér um að halda uppi fjölbreyttu og skemmtilegu félagslífi við skólann. Allir viðburðir nemendafélagsins birtast á heimasíðu skólans undir upplýsingar eða á instagram síðu NFFG.

FORELDRARÁÐ

Í skólanum er foreldraráð. Foreldrar allra nemenda skólans geta verið í foreldraráðinu. Foreldraráð starfar sem félag með þriggja manna stjórn. Hlutverk þess er að styðja við skólann til góðra verka og vera tengiliður foreldra við stjórnendur skólans. Meginverkefni ráðsins tengist ýmsu er varðar félagslíf nemenda og skólasókn.

GAGNLEGT FYRIR FORRÁÐAFÓLK

Skólaböll eru haldin að meðaltali tvisvar á önn og alltaf í miðri viku. Ferðir í nafni skólans eru alltaf mannaðar starfsfólki skólans. Allar upplýsingar um skemmtanir á vegum NFFG eru birtar á heimasíðu skólans og/eða á Instagram síðu NFFG. Foreldrum er ráðlagt að hafa samband við skólann og spyrjast fyrir ef vafi leikur á hvort skemmtun sé á vegum NFFG. Samkvæmt lögum hafa ungmenni undir 20 ára aldri ekki leyfi til að drekka áfengi. Ölvun ógildir því miða á viðburði á vegum NFFG.

HAFIÐ SAMBAND

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna um skólann og námið. Hægt er að leita til umsjónarkennara, náms-og starfsráðgjafa og stjórnenda skólans.

Uppfært 14.6.2024