Lýsing
Í áfanganum læra nemendur um samgöngu- og iðnbyltinguna á 19. öld og hvernig þær breytingar höfðu áhrif á þróun hönnunar í tengslum við listiðnaðarfélög, menntun, fyrirtæki og fjöldaframleiðslu í hinum vestræna heimi. Gerð er grein fyrir helstu tækninýjungum sem urðu í kjölfar þessara breytinga og þeirri aukningu sem varð á framboði á vöru, farartækja og húsnæðis. Lögð er áhersla á þær hönnunarstefnur og stíla sem höfðu hvað mest áhrif á hönnun manngerðs umhverfis. Gerð er grein fyrir helstu atburðum og áhrifavöldum tímabilsins og hvernig það hafði áhrif á stefnur og strauma í hönnun. Lögð er sérstök áhersla á samanburð við Ísland og hvernig atburðir, stefnur og straumar hafa haft áhrif á þróun hönnunar hérlendis. Kynnt eru áhrif endurnýtingar og verndunar umhverfis á hönnun.