Umhverfisstefna

Inngangur

Umhverfisstefna Fjölbrautaskólans í Garðabæ tekur til allrar starfsemi skólans.
Stefnan lýsir vilja skólans til að taka ábyrgð á umhverfismálum innan sem utan hans en einnig er henni ætlað að vera til hvatningar fyrir starfsmenn og nemendur skólans í öllu því er snýr að umhverfismálum.
Umhverfismál eru mikilvæg öllum þegnum þjóðfélagsins, hvar sem þeir búa og starfa. Öllum ber skylda til að búa komandi kynslóðum jafngóð skilyrði til lífs og þeir sjálfir njóta.

Markmið

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er framhaldsskóli sem hefur það markmið að nám í skólanum stuðli að alhliða þroska nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi.
Markmið umhverfisstefnu Fjölbrautaskólans í Garðabæ er að skólinn sýni ávallt árvekni í umhverfismálum og hafi frumkvæði að umbótum.

Áherslur skólans:

Sjónarmiða umhverfisverndar verður gætt í öllum rekstri.

Fræðsla um umhverfismál verður fléttuð inn í námsefni á viðeigandi stöðum í námsvísi skólans og umhverfisverndarsjónarmiðum gerð glögg skil.

Ytra umhverfi

Tryggja skal:

Góða umgengni á lóð skólans með því að hafa gott aðgengi að sorpílátum.

Ræktun með skipulegum hætti og í samræmi við flóruna í umhverfinu.

Að nýbygging skólans falli vel að nánasta umhverfi.

Innra umhverfi

Tryggja skal:

Góða umgengni um húsnæði skólans.

Að umhverfi skólastofunnar myndi góðar aðstæður fyrir andlega og líkamlega vellíðan við nám og störf.

Að dregið verði úr pappírsnotkun svo sem með flokkun pappírs, endurvinnslu hans, prentunarmöguleikum og notkun Námsnets.

Að í öllum vöruflokkum viðhalds og rekstrar verði eftir föngum valdar þær vörur sem eru vistvænar eða hafa lágmarksinnihald eiturefna.

Að við ræstingu verði einungis notuð umhverfisvæn efni í lágmarks magni.

Að við innkaup verði miðað við að halda magni umbúða í lágmarki og að þær verði endurnýttar þar sem því verður við komið.

Að einungis verði keypt tæki sem nýta vel orku, eru umhverfisvæn í notkun og nýta vistvæn viðhaldsefni.

Að gerðar verði ráðstafanir til að spara raforku- og hitanotkun.

Umhverfisstefna skólans er endurskoðuð reglulega í samræmi við aðstæður hverju sinni. Framkvæmdaáætlun í umhverfismálum er hluti af starfsáætlun skólans þar sem fram koma verkefni hvers árs og er hún unnin með starfsmönnum skólans og nemendum þar sem það á við.