Harpa fór með nema til Ítalíu

 FG-ingar í ítölskum frumkvöðlabúðum á Suður-Ítalíu

Það var heldur betur líf og fjör í Basilicata-héraðinu á Suður-Ítalíu dagana 17.-21. október 2022 þar sem FG tók þátt í Erasmus-verkefninu “Essence of Agriculture and Rural Traditiona Hospitality”, sem gengur undir vinnuheitinu “EARTH”.  Þetta var fyrsta heimsókn af samtals sex talsins í verkefninu öllu, þar sem nemendur og kennarar koma saman og stendur hver heimsókn yfir í fimm daga auk ferðadaga. Samstarfslönd eru sex talsins: Ítalía, Spánn, Grikkland, Portúgal, Króatía og Ísland, sem er verkefnisstýrandi. Ítalski skólinn, sem var gestgjafi að þessu sinni, heitir Istituto Statale d’Istruzione Superiore “Pitagora” og er staðsettur í tveimur smábæjum á Suður-Ítalíu, sem heita Montalbano og Nova Siri.

Í auðlindagarði Basilicata

Um er að ræða frumkvöðlaverkefni, þar sem nemendum er skipt upp í alþjóðlega hópa og eiga hóparnir að vinna saman í frumkvöðlabúðum að stofnun frumkvöðlafyrirtækja, sem byggja á sjálfbærni og náttúruauðlindum þess svæðis, þar sem heimsóknin á sér stað hverju sinni. En fyrstu tvo dagana fór hópurinn í skoðunarferðir um Basilica-héraðið og í heimsókn í Nýsköpunarmiðstöð Ítalíu, sem er m.a. bakhjarl verkefnisins.   Út úr Ítalíu-heimsókninni spruttu fimm frábærar viðskiptahugmyndir, sem allar áttu sér tengingu í ferðaþjónustu, grænum landbúnaði og staðbundnum auðlindum, sem svæðið býr yfir enda af nógu að taka, sbr. vínvið, ólífutré, ávaxtatré, umhverfisfegurð og fleira og fleira. Á lokakvöldi var svo haldin hátíð á miðbæjartorgi Nova Siri þar sem margmenni mætti, m.a. tveir bæjarstjórar og einn héraðsstjóri, og voru vinnings viðskiptaáætlanir tilkynntar og verðlaunaðar þar með pomp og prakt. Á lokadegi fóru þátttakendur í ógleymanlega ferð til Matera – City of Caves, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO.

Eignuðust ítalskar fjölskyldur

Fulltrúar FG í verkefninu á Ítalíu voru þau Sveinn Elí Helgason, Inga Birna Ólafsdóttir, Sandra Dís Heimisdóttir og Lára María Aðalbjörnsdóttir, sem öll eru á viðskiptasviði FG, ásamt Hörpu Valdimarsdóttur, kennara á viðskiptasviði. Nemendur gistu hjá ítölskum fjölskyldum og óhætt er að segja að myndast hafi innleg ítölsk “fjölskyldutengsl” á þessari viku og krakkarnir okkar höfðu það á orði að greinilegt væri að þeir snéru heim reynslunni ríkari, búnir að eignast ítalskar fjölskyldur fyrir lífstíð, ekki bara jafnaldra, heldur mömmur og pabba og allt upp í ömmur og afa.

Fimm heimsóknir til viðbótar

Jóhanna Ingvarsdóttir, sem er sjálfstætt starfandi Erasmus verkefnisstjóri, hafði veg og vanda að umsóknarferli og gegnir nú hlutverki verkefnisstjóra í verkefninu öllu, sem er til tveggja ára og lýkur því haustið 2024.  Næstu heimsóknir í verkefninu eru til Cordóba á Spáni í nóvember 2022,  til grísku eyjunnar Evia í apríl 2023, Peso da Régua í Portúgal í október 2023, Pozega í Króataíu í nóvember 2023 og loks fær FG heimsókn til Íslands frá öllum samstarfslöndum í apríl 2024. Í hverri heimsókn taka þátt fjórir nemendur á aldrinum 14-18 ára auk tveggja kennara frá hverju landi.