05.02.2021 Skilaboð frá skólameistara

Kæru nemendur og aðstandendur

Nú er miðönnin langt komin og fjórar vikur síðan staðkennslan fór nánast á fullt. Nú eftir helgina tökum við annað skref. Ekki verður lengur ætlast til að nemendur noti mismunandi innganga og sófar fara á sína hefðbundnu staði innan skólans að því undanskyldu að engir sófar verða á jarðhæð þar sem við getum síður haft eftirlit með nemendum þar en á hinum hæðunum. Aðrir inngangar verða áfram opnir og mælum við með notkun þeirra. Öll hópamyndun er bönnuð og biðjum við nemendur að hafa það í huga og taka vel athugasemdum um grímunotkun og fjarlægð á milli manna.

Áfram eru persónulegar smitvarnir mjög mikilvægar og hvet ég nemendur til að sinna þeim mjög vel. Það eru mikil forréttindi að geta sótt skólann og mikilvægt að allir geri sitt besta til að svo verði áfram. Nemendur hafa staðið sig afar vel á Covid-tímum og eru hetjur í mínum augum.

Bílastæðismál eru í ólestri hjá okkur. Sumir nemendur leggja fyrir framan hjólreiðaskýli skólans og jafnvel í stæði fatlaðra. Enn aðrir leggja við stíginn ofan við skólann og valda með því miklum vandræðum fyrir þá sem þjónusta skólann með sorp og vöruafhendingar. Við munum á næstunni taka á þessum málum og munum við láta draga þá bíla á brott sem leggja þar sem ekki á að leggja.  Vissulega er það svo að það er skortur á stæðum. Það gefur engum rétt til að leggja í stæði fatlaðra eða þar sem bannað er að leggja. Eins valda bifreiðar fyrir framan hjólaskýli því að hringtorgið þrengist mjög sem veldur hættu fyrir gangandi vegfarendur. Strætó stoppar við skólann og hvet ég nemendur til að nota almenningssamgöngur. Einnig hefur veðrið leikið við okkur í vetur og auðvelt að koma gangandi eða á hjóli í skólann.

B.kv.

Kristinn Þorsteinsson
skólameistari
e-mail: kristinn@fg.is