Það var engin lognmolla á haustönn 2025 í FG.
Nú er haustönn að ljúka í FG og um miðjan nóvember byrjar svo miðönn, sem stendur til 20.febrúar.
Haustönnin hefur verið viðburðarík. Það voru heitir og fallegir dagar þegar önnin lagði af stað, en nú er farið að kólna, það líður að jólum og skammdegið eykst.
En sunnudaginn 21. desember, nákvæmlega kl. 15.03 þann daginn, samkvæmt almanakinu, fer að birta á ný. Þá eru svokallaðar ,,Vetrarsólstöður“ hér á landi.
Skólalífið var á fullu á haustönn, eins og það á að vera, það var grillað og haldið nýnemaball og hvað eina.
Hópur nemenda fór í ævintýraferð með Erasmus, til borgarinnar Lugo á Spáni og lenti í ,,flugveseni.“ Betur gekk hjá enskuhópnum sem fór til Edinborgar og skoðaði þar meðal annars hin fornfræga kastala. Talið er að konungar hafi verið þar á ferð alveg frá 12.öld, jafnvel fyrr.
Hópur erlendra kennara kom í heimsókn og skilst ritara að þeir hafi hrifist af aðstöðunni í FG. Stundum koma líka gestir í heimsókn í tíma (kennslu) og gaf t.d. Bjarni Benediktsson, fyrrum forsætis og fjármálaráðherra, sér tíma til þess að koma og spjalla við nemendur í stjórnmálafræði. Vakti það víst lukku.
Mikið er alltaf að gerast í ,,leiklistarbransanum“ í FG, enda skólinn með frábæra stöðu í þessum málum, svo öflugt er leiklistarlífið. Í byrjun nóvember vann leikhópur frá FG spunakeppnina ,,Leiktu betur“ – í annað sinn í röð! Fjöldi annara skóla tók þátt.
Þá veit ritari ekki betur en að allt sé á fullu í undirbúningi vegna væntanlegrar sýningar Leikfélagsins Verðandi á ,,Ljóska í gegn“ í vor, en það er söngleikur sem byggir á kvikmyndinni ,,Legally Blonde.“ Hafa svokallaðar ,,prufur“ verið í gangi að undanförnu, en þá er verið að velja í hlutverk í stykkinu.
Þá var leikritið ,,Sagan af Mánahofi" frumsýnt í byrjun nóvember, en það er fyrir börn á öllum aldri. Sérstök góðgerðarsýning verður 8.nóvember, en síðan eru einnig sýningar þann 9.11 og 15.11.
Menntamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, kom í heimsókn á haustönninni og ræddi menntamál við kennara skólans. Var vel tekið á móti honum.
Einnig kvöddu brautskráningarefni kennara og starfsmenn með kökum og kræsingum þann 22. október og ,,Bleiki dagurinn“ var haldinn hátíðlegur þann sama dag. Góðvinafélag FG var endurvakið í byrjun október og verður gaman að fylgjast með því.
Listin í FG lætur svo yfirleitt alltaf á sér kræla þegar önnum lýkur, en þá eru oft verk nemenda úr listaáföngum sett upp í skólanum og lífgar það mjög upp á.
Þetta var svona það helsta, en það er í raun allt á fullu í FG og lífið heldur áfram. Sjáumst!