Þórunn Erla Erlendsdóttir var með bestan námsárangur að þessu sinni.
Brautskráning frá FG á haustönn fór fram föstudaginn 21.nóvember síðastliðinn í hátíðarsal skólans, Urðarbrunni. Alls voru 33 sem brautskráðust að þessu sinni, flestir af Listnámsbrautum, eða átta.
Bestum námsárangri, dúx, náði Þórunn Erla Erlendsdóttir, af Félagsvísindabraut og hlaut hún ágætiseinkunn. Fyrir góðar framfarir í námi fékk Elísabet Inga Helgadóttir, Listnámsbraut og fékk hún verðlaun frá Soroptimistafélagi Hafnarfjarðar.
Samfélagsverðlaun FG fékk Mikael Steinn Guðmundsson, Leiklistarbraut, en þeir sem fá þau hafa verið til fyrirmyndar í skólanum, hafa látið gott af sér leiða í starfi skólans og skapað jákvætt andrúmsloft innan hans.
Mikael og Óli Björn Arnbjörnsson, ásamt fleirum, fluttu síðan atriði sem var bæði tónlistar og leikatriði, þar sem Senjorítukórinn tók meðal annars þátt. Óhætt er að segja að atriði af þessari tegund hafi ekki verið flutt á brautskráningu áður. Vakti atriðið mikla lukku gesta, en hægt er að sjá það á Youtube-rás skólans, þar sem brautskráningunni var streymt (á 43. mín).
Ávarp nýstúdents flutti Arna Rut Arnarsdóttir og þá flutti nýr formaður skólanefndar FG, Stefán Snær Stefánsson tölu. Hann er stúdent frá FG og var forseti nemendafélags FG, NFFG, á sínum skólaárum. Ásgeir Óli Egilsson fékk síðan blómvönd og sérstakar þakkir fyrir góð störf í félagslífi skólans. Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir mætingu og góðan árangur í íþróttum.
Það voru Kristinn Þorsteinsson og Anna María Gunnarsdóttir, skólameistararnir, sem stjórnuðu athöfninni. Í ræðu sinni kom Kristinn meðal annars inn á stöðu íslenskunnar og fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólanum, sem þó er óvíst að verði af. Hann sagði þær þó verða mestu breytingar á skólastiginu í marga áratugi, komist þær í framkvæmd. Kvaddi hann hópinn með virktum.
Íslands minni var sungið i lokin og síðan var smellt mynd af hópnum í köldu, en fallegu veðri fyrir utan FG. Síðan var farið að fagna. FG óskar nýstúdentum hjartanlega til hamingju, þakkar fyrir samveruna og óskar öllum góðs gengis.

