Erasmus-ferð til Noregs gekk vel

Góður andi var í Noregi í Erasmus-ferðinni í lok janúar 2024.
Góður andi var í Noregi í Erasmus-ferðinni í lok janúar 2024.

Nemendur FG fóru til Noregs dagana 21.-26. janúar á vegum Erasmus+ verkefnis en FG er í samstarfi við skólana Skedsmo Videregående Skole í Lilleström og IES Nosa Senora dos Ollos Grandes í Lugo á Spáni. 12 nemendur fóru til Lugo í október og fóru 12 nemendur til Lilleström nú í janúar.

Heilmikil dagskrá fylgir slíkum heimsóknum, en nemendur gista heima hjá öðrum nemendum á meðan dvöl þeirra stendur. Meðal annars var unnið með landkynningar og samanburð á menningu á milli landanna þriggja, og var það í höndum Norðmanna að kynna gestina fyrir landi sínu og þjóð í þetta sinn.

Var því farið í langan ratleik um miðborg Osló, skíðaferð í Hafjell, heimsóknir á Munch-safnið og í "National Museum" - sem í raun er þeirra Þjóðminjasafn. Þar fyrir utan var mikið hópefli og skemmtileg stemning myndaðist á milli nemenda í ferðinni sem varð til þess að þónokkur tár féllu við kveðjustund.

Með nemendunum voru í för kennararnir Berglind Magdalena, Hilmar Þór, Íris Hvanndal og Ylfa Ösp.