Erasmus+ verkefni í Lugo á Spáni

Hópurinn í Santiago de Compostela, héraðshöfuðborg Galisíu.
Hópurinn í Santiago de Compostela, héraðshöfuðborg Galisíu.

Hópur nemenda frá FG fór í október til borgarinnar Lugo, í Galisíu, á NV-Spáni í Erasmus+ verkefni, sem er styrkt af Evrópusambandinu. Um var að ræða tólf nemendur, sem gistu hjá spænskum fjölskyldum dagana 8-14.október síðastliðinn.

Með í för voru kennararnir Rakel Linda, Sif Þráinsdóttir, Sigríður Anna og Gunnar Hólmsteinn. Spænski skólinn sem heimsóttur var heitir í raun ,,Skóli konunnar með stóru augun” eða álíka upp á íslensku, eða á frummálinu; IES Nosa Seniora dos Ollos Grandes.

Þrátt fyrir stífa dagskrá alla dagana frá morgni til kvölds, voru nemendur ávallt jákvæðir og tilbúnir að taka þátt í öllu sem fór fram. Farið var víða um svæðið og margt skemmtileg skoðað og gert.

Í þessu verkefni tekur einnig þátt framhaldsskóli frá Lillestrøm í Noregi, ,,Skedsmo videregående skole", auk skólans í Lugo. Okkar norsku vinir gistu einnig hjá spænskum fjölskyldum þessa sömu viku.

Kynntu FG-ingar land og þjóð í skólanum með glæsibrag og var meðal annars sungið. Hið sama gerðu Norðmenn, en verkefnið gengur meðal annars út á sögu og menningu þjóðanna.

Mesta áskorun þátttakenda var hins vegar að dvelja hjá gestgjöfum sínum og stíga út fyrir þægindarammann. Tókst það afar vel. Ferðin í heild gekk mjög vel og voru nemendur okkar landi, þjóð og skóla til sóma.

Í vor koma svo Norðmenn og Spánverjar til Íslands og dvelja hjá fjölskyldum okkar nemenda.