Í ágúst var höggvið skarð í starfsmannahóp Fjölbrautaskólans í Garðabæ við andlát Guðbjargar Guðjónsdóttur. Guðbjörg var farsæll líffræðikennari og naut vinsælda jafnt hjá nemendum sem og starfsfólki.
Guðbjörg hóf störf við FG árið 1998. Stóran hluta starfsferilsins var Guðbjörg kennslustjóri raungreina og sinnti því ásamt kennslunni afar vel. Henni fór flest vel úr hendi hvort sem það var leiðsögn nýrra kennara eða forysta í sinni deild enda hélt hún vel utan um sitt fólk. Guðbjörg var sanngjörn en föst fyrir og lét ekki ganga á hlut raungreina innan skólans og lét stjórnendur óspart heyra ef henni mislíkaði. Guðbjörg var öflugur þátttakandi í félagslífi starfmanna og var með í frægum ferðum til Kanada og Spánar svo dæmi séu tekin.
Fjölskylda Guðbjargar er stór og tókst henni vel að samræma vinnu og einkalíf og sinnti hvorutveggja af kostgæfni. Það var ánægjulegt að finna stolt Guðbjargar af ömmu tvíburunum og sárt að hún fær ekki að sjá þá vaxa úr grasi.
Skarð Guðbjargar er vandfyllt og við munum sakna hennar. Missir okkar bliknar þó samanburði við missi aðstandenda. Vonandi munu ljúfar minningar um frábæra konu, sem kvaddi alltof snemma, styrkja aðstandendur á erfiðum tímum.
Sá er eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnarnir
honum yfir.
-Hannes Pétursson
Kristinn Þorsteinsson skólameistari