Heimsókn til forseta Íslands

Vel var tekið á móti stjórnmálafræðinemum á Bessastöðum og áttu nemendur gott spjall við forsetann, …
Vel var tekið á móti stjórnmálafræðinemum á Bessastöðum og áttu nemendur gott spjall við forsetann, Guðna Th Jóhannesson.

Stjórnmálafræðinemar duttu í lukkupottinn í síðustu kennsluviku haustannar, en þá gafst þeim tækifæri á því að heimsækja forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannesson á Bessastöðum.

Var vel tekið á móti hópnum með kaffi og kleinum og sýndi Guðni hópnum meðal annars hið virðulega og ævagamla eikarborð, sem keypt var til landsins um miðja síðustu öld og nýjar ríkisstjórnir eru gjarnan myndaðar við.

Þá setti Guðni einnig á svið þá athöfn með nemendum þegar hann tekur á móti sendiherrum annarra ríkja í fyrsta sinn.

Síðan tók við gott spjall um heima og geima þar sem víða var komið við. Daginn eftir þaut svo Guðni til Slóvakíu í opinbera heimsókn, enda mikið að gera hjá forseta Íslands.