Það er gaman að lesa saman. Samlestur í leikhópnum fyrir sýninguna þann 1.nóvember á leikritinu Sagan af Mánahofi .
Það er nóg að gera hjá leikfélaginu Verðandi, sem á hverju ári sýnir í FG, en undanfarin ár hefur aðalsýningin (á vorin) verið söngleikur. FG.is hafði samband við félagið og spurði frétta og það stóð ekki á svörum.
Búið er að velja leikrit fyrir stóru sýninguna næstkomandi vor og það verður söngleikjauppfærsla sem byggir á kvikmyndinni ,,Legally blonde“ þar sem Reese Witherspoon fór á kostum. ,,Ljóska í gegn“ er íslenska heitið.
Leikstjóri er Stefán Benedikt Vilhelmsson, danshöfundur er Aníta Rós Þorsteinsdóttir, söngþjálfari er Lilja Dögg Gunnarsdóttir og tæknihönnuður er Þórður Gunnar Þorvaldsson.
En það er fleira að gerast, því 1.nóvember verður frumsýnt nýtt leikrit, en það vann handritakeppni sem Verðandi hélt og lauk 1. ágúst síðastliðinn.
Leikritið heitir Sagan af Mánahofi, eftir þau Kára Hlynsson og Hildi Jónu Valgeirsdóttir. Ásamt þeim eru Gréta Þórey Ólafsdóttir og Katla Borg Stefánsdóttir með í að setja upp þessa sýningu. Gréta er lagahöfundur ásamt Kára og Katla er danshöfundur.
Sagan af Mánahofi er barnaleikrit um Loga og Heklu sem eru tveir krakkar sem búa í mismunandi heimum. Einn daginn eru þau dregin í svo kallað Mánahof þar sem að þau kynnast og hjálpast við það að sigra hann Mána sem er sá sem skipti heiminum í þrennt.
Greinilega nóg að gera hjá Verðandi og við erum full tilhlökkunar.