,,Vorum pínu lofthræddir" - listaverk afhjúpað í FG

Höfundar verksins: Guðjón Viðarsson og Kári Þór Arnarsson.
Höfundar verksins: Guðjón Viðarsson og Kári Þór Arnarsson.

,,Okkur leið pínu stundum eins og við værum að skreyta Sixtínsku kapelluna í Róm,“ sögðu þeir Guðjón Viðarsson og Kári Þór Arnarsson, en þeir eru mennirnir á bakvið listarverk í anddyri FG, sem var afjúpað í FG þann 29.ágúst síðastliðinn og er unnið vegna 40 ára afmælis skólans.

Reistur var mikill lyftari vegna verksins og þar voru þeir félagarnir í sumar að mála og teikna þetta allt saman upp á vegginn. Þarna má finna bæði persónur og atburði úr sögu skólans, skólameistara, Gettu-betur lið og svo framvegis. Hófst málningarvinnan í byrjun júní og stóð yfir í um tvær vikur.

Verkið var unnið í samvinnu við Garðabæ, foreldrafélag FG, nemendafélagið og fyrrum starfsmenn skólans. Það var Almar Guðmundsson, stúdent frá FG og bæjarstjóri Garðabæjar sem vígði verkið, en Kristinn Þorsteinsson, skólameistari, sá um ,,beina lýsingu.“

Guðjón sagði í stuttu spjalli við FG.is að hugmyndin að listaverkinu hefði kviknað í kjölfar badmintonmóts fyrir eldri nemendur, sem haldið var í FG. ,,Síðan leiddi bara eitt af öðru og við vorum fengnir í þetta,“ sagði Guðjón.

Þeir voru með nokkrar hugmyndir til að vinna út frá, en annars sagði Guðjón að þetta hefði orðið mikið til á staðnum: ,,Það má segja að þetta hafi verið svona ákveðinn spuni líka, sagði hann og bætti við að bæði venjuleg veggjamálning og svokallaðir ,,akrýlpennar“ hefðu verið aðalefnin sem þeir Kári notuðu.

En voru þeir ekkert lofthræddir? ,,Jú, jú, það tók smá tíma að venjast að vinna svona hátt uppi, en þetta gekk allt saman mjög vel þegar á leið,“ sagði Guðjón.

Bæði Guðjón og Kári fóru í frekara nám eftir FG, Guðjón til Århus í Danmörku og lærði þar viðskiptafræði og Kári Þór er að klára sálfræði í HR.

Þeir félagarnir hafa verið að stunda listsköpun saman í raun frá æskuárum og sýndu meðal annars verk sín í versluninni Epal, fyrr á þessu ári. Að sögn Guðjóns verður ný sýning á næsta ári.

Þeir voru ánægðir með móttökurnar sem verkið fékk: ,,Þetta var bara mjög skemmtilegt, þegar þetta var afhjúpað og gaman að standa í þessu,“ sagði Guðjón að lokum.

Eru þeim færðar þakkir fyrir þetta litríka og skemmtilega verk.