NFFG safnaði 1.200.000 krónum fyrir BUGL í góðgerðarvikunni.
Nemendafélag FG, NFFG, hefur svo sannarlega staðið í stórverkum að undanförnu, en félagið stóð fyrir góðgerðarviku fyrir skömmu, en henni lauk þann 25.apríl síðastliðinn.
Staðið var fyrir allskonar atburðum og uppákomum, allt í þeim tilgangi að safna fé fyrir BUGL, sem er Barna og unglingageðdeild Landspítalans.
Mjög göfugt verkefni, en á BUGL dvelja um 900 ungmenni á hverju ári, sem öll glíma við allkyns andlega erfiðleika. BUGL kom til FG og hélt kynningu á starfsemi sinni og var það hluti af góðgerðarvikunni.
Alls safnaði NFFG um 1.200.000 krónum, sem fulltrúar NFFG afhentu BUGL föstudaginn 25.apríl síðastliðinn.
Það var Kolfinna Þórðardóttir, forseti NFFG, sem fór fyrir hópnum, en á myndinni eru frá vinstri; Erla Mjöll, Halla Stella, Kristín Jóhanna, Kolfinna, Jónas Breki, Unnsteinn Jóhannsson og Tinna Guðjónsdóttir, frá BUGL, Ísabella Þóra og Sara Líf.
Frábært framtak.