Þetta er bara ótrúlegt!

Félagarnir í Hamlet, greinilega ekki barnaleikrit! Frá vinstri: Reynir Ólafsson, Atli Svavarsson, Ar…
Félagarnir í Hamlet, greinilega ekki barnaleikrit! Frá vinstri: Reynir Ólafsson, Atli Svavarsson, Arnaldur Gústafsson, Smári Hannesson, Oddur Sverrirsson og Mikael Steinn Guðmundsson. Mikael segir fjölda FG-inga vera komna til starfa í Borgarleikhúsinu. Það segir okkur ýmislegt um gæði leiklistarstarfsins í FG. S/h myndir eru fyrir krúnurakstur, en þetta vex jú allt saman.

,,Þetta er eiginlega hið fullkomna unglingaleikrit, hinn fullkomni Hamlet fyrir ungt fólk,“ segir Mikael Steinn Guðmundsson, nemi í FG á leiklistarbraut og nú leikari í Borgarleikhúsinu í nýrri uppsetningu á því sem kallað er ,,leikrit leikritanna“ og er eftir líklega frægasta leikritaskáld allra tíma, William Shakespeare (1564 - 1616).

En Mikael er ekki eini neminn frá FG í sýningunni, því með honum eru þei Smári Hannesson og Arnaldur Breki Gústafsson, einnig nemar á leiklistarbrautinni í FG. En FG.is lék forvitni á því hvernig þetta hafi allt saman komið til?

,,Það var eiginlega ,,Nalli“ - eins og Arnaldur er kallaður, sem kom þessu á koppinn. Hann frétti af uppsetningunni og að Kolfinna leikstjóri væri að leita að ungum mönnum í leikritið. Hann sendi því bara á hana skeyti; ,,Hæ, mig langar að vera með í Hamlet.“

En hún sagðist lítið geta gert nema ef hann væri með leikhóp með sex ungum mönnum með sér, þannig svaraði hún honum, en í smá gríni,“ sagði Mikael.

En Nalli svaraði bara til baka og sagðist vera einmitt með slíkan hóp. Hann var nefnilega búinn að hringja í okkur Smára og þrjá aðra stráka, þannig að hópurinn var klár,“ segir Mikael. ,,Nalli þekkir hina best, en við erum núna allir orðnir góðir vinir,“ sagði Mikael.

Auk FG-inganna eru því þeir Reynir Ólafsson úr FB, Oddur Sverrisson úr Versló og Atli Svarsson úr MH, í hópnum góða sem ,,Nalli“ púslaði saman.

Kolfinna hitti síðan drengina og eftir það fór boltinn að rúlla: ,,Ég var bara eiginlega ekki að trúa þessu,“ segir Mikael. Síðan kynntust þeir hinum leikurum verksins smám saman, farið var í sjósund og ,,gufugusu“ og hvað eina, eins og Mikael orðaði það. ,,Gufan var heima hjá mömmu leikstjórans og það var mjög gaman," sagði Mikael.

,,Við leikum hermenn og af því að við erum hermenn, þá þurfti hárið að rjúka, við þurftum að krúnuraka okkur,“ bætti Mikael við. Þeir hgaurar eru því heldur hárlitlir á sviði Borgarleikhússins.

En hvað er Hamlet?

,,Sagan um prinsinn Hamlet er bæði magnþrungið og margslungið verk, það er ,,epískt“ eins og maður segir. Því oftar sem maður heimsækir það og heyrir verkið, því meira skilur maður,“ segir Mikael.

Leikgerðin er eftir Kolfinnu Nikulásardóttir og í stykkinu leika ýmsir stórleikarar, fremstur meðal jafningja þar eflaust Hilmir Snær Guðnason, en þarna eru líka ,,Villi“ Neto, Berglind Alda Ástþórsdóttir og Sigurbjartur Sturla Atlason, sem leikur Hamlet.

Hamlet gerist í Danmörku og fjallar um hefnd, öfundsýki og fleira slíkt spennandi. Úr Hamlet er komnar að öllum líkindum tvær frægustu setningar leiklistarinnar; ,,to be og not to be, that is the question“ (að vera eða vera ekki, það er spurningin) og ,,there‘s something rotten in the state of Denmark,“ (Það er eitthvað rotið í Danaveldi).

Sýningar á Hamlet eru hafnar og standa fram í janúar á næsta ári, en aðspurður segir Mikael að þeir hafi ekki verið stressaðir fyrir frumsýninguna: ,,Við vorum eiginlega bara spenntir. Það voru allir búnir að vera mjög ,,næs“ við okkur og það var virkilega haldið vel utan um okkur ungu mennina, já við vorum bara öruggir.“ Þeir eru mikið á sviðinu að sögn Mikael og þeir eru kannski ekki með margar línur, en svo bætir hann við: ,,Við erum mjög sýnilegir."

,,Þetta er stórt og mikið stykki, með mikilli dramatík, en þessi uppsetning passar að mínu mati mjög vel ungu fólki. Ég bara skildi stykkið þegar ég var að hlusta á það á æfingum,“ sem gengu vel að sögn Mikaels. ,,Og það er ekki alltaf þannig að maður skilji bara allt í upphafi. Þetta er líka fyndið og með miklum skírskotunum inn í samtímann,“ bætti hann við.

En eru þið strákarnir þá orðnir atvinnuleikarar?

,,Já, kannski að einhverju leyti, að minnsta kosti fram í janúar, en það er bara pínu skrýtið að fá borgað fyrir þetta. Maður kemur upp í leikhús, það eru allar hurðir opnaðar fyrir mann, maður stígur á svið og fær borgað fyrir það, það er ótrúlegt eiginlega,“ sagði Mikael Steinn Guðmundsson að lokum.