Tilkynning frá skólameistara FG, föstudaginn 27.mars 2020

FG er lokaður vegna kórónaveirunnar :(
FG er lokaður vegna kórónaveirunnar :(

Kæru nemendur og forráðamenn.

Nú eru komnar tvær vikur síðan hurðinni var lokað í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ eins og í öðrum framhaldsskólum landsins. Í einum vettfangi var kennslunni breytt í dreifnám. Eitthvað sem hafði ekki áður verið gert í FG. Kennt eftir stundatöflu, en með rafrænum hætti. Ég get ekki annað en dáðst að nemendum og kennurum. Báðir aðilar hafa sýnt hugmyndaauðgi og dugnað.

Nú er ein vika fram að páskum og þá fá nemendur og kennarar verðskuldað hlé. Á þessari stundu vitum við ekki hvernig skólastarf verður eftir páska. Þó er rétt fyrir nemendur að búa sig undir það að kennslan verði með sama formi eftir páska. Þó vil ég taka skýrt fram að við gerum ráð fyrir að annarlok breytist ekki, við munum brautskrá nemendur 30. maí.

Miðannarmat verður skráð í næstu viku og getið þið í lok vikunnar séð hvar þið, nemendur, standið. Talsvert er eftir af önninni og hvet ég ykkur sem alltaf áður að leggja ykkur fram og leita aðstoðar ef þið eruð í erfiðleikum. Foreldrum ráðlegg ég að fylgjast vel með námi og veita aðstoð. Oft er þörf en nú er nauðsyn, stuðningur foreldra getur skipt sköpum við svona aðstæður. Kæru nemendur þiggið þá aðstoð sem í boði er og leyfið foreldrum að fylgjast með.

Kv, Kristinn Þorsteinsson skólameistari.