Upphaf kennslu eftir jólafrí á miðönn 2020-2021

Kæru nemendur og aðstandendur

Ég vona að þið hafið haft það gott um jólin og munið njóta skemmtilegra og öruggra áramóta. 

 Nokkuð er farið að skýrast með hvernig kennslu verður háttað eftir áramót. Reglugerð frá heilbrigðismálaráðuneytinusem tekur gildi 1. janúar gerir okkur kleift að auka staðkennslu verulega. Samt er nauðsynlegt að hafa í huga að lítið þarf að breytast í samfélaginu til að verulega verði hert á reglum um skólahald í framhaldsskólum.

 Við ætlum okkur að fara varlega og gera okkar ítrasta til að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna skólans. Að flestu leyti munum við hefja önnina á sama hátt og haustönnin 2020 hófst. Það er með samblandi af staðkennslu og fjarkennslu. Eftir sem áður er lykilatriði að fylgjast með upplýsingum frá kennara hvers áfanga fyrir sig. Það verða mismunandi nálganir hjá mismunandi kennurum. Fámennir áfangar og allir verklegir áfangar í listnámi verða kenndir að fullu í staðnámi. Við munum skipta skólanum &iacu te; svæði og munum við nota mismunandi innganga eftir því í hvaða stofu er farið hverju sinni.  Við munum leggja áherslu á góða loftun og bendum nemendum á að vera vel klæddir. Það verður kaldara í skólanum en undir venjulegum kringumstæðum. 

Eftirfarandi eru helstu atriðin varðandi skólabyrjun:

  • Mánudagurinn 4. janúar verður skipulagsdagur og engin kennsla verður þann dag.
  • Kennsla hefst þriðjudaginn 5. janúar. Upplýsingar um hvort og hvernig þið eigið að mæta koma frá hverjum kennara fyrir sig.
  • Grímuskylda verður í skólanum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð á milli fólks. Við hvetjum nemendur til að koma með sínar eigin grímur en grímur verða einnig við alla innganga. Endilega hendið notuðum grímum á viðeigandi staði.
  • Bókasafn skólans verður opið en takmarkaður fjöldi kemst fyrir. Nemendur sem þurfa að vera í skólanum fyrir tíma eða milli tíma er velkomið að koma í bókasafnið. Einnig geta nemendur verið í stofum ef þeir þurfa aðstöðu í skólanum milli tíma.
  • Skólanum verður skipt upp í fimm svæði þar sem hvert svæði verður með sér inngangi.  Við hvern inngang eru sóttvarnir aðgengilegar og skulu allir nota þær sem koma inn á nýtt svæði. Öll svæði eru með salerni.
  • Verklegir áfangar í listnámi og fámennir áfangar verða kenndir að fullu í staðnámi en nauðsynlegt er að fylgjast með tilkynningum frá kennurum.
  • Mötuneytið verður opið og verður hægt að ganga inn utan frá en einnig inn um hefðbundinn inngang. Takmarkaður fjöldi kemst fyrir hverju sinni.

Þessar reglur gildu fyrstu vikuna og jafnvel lengur. Við munum eins og við teljum öruggt auka staðnám og vonandi getum við haft alla áfanga í fullu staðnámi innan skamms. Eins og áður er lykilatriði að fylgjast vel með upplýsingum frá kennurum ykkar og frá skólanum. 

Með áramótakveðju,

Kristinn Þorsteinsson
skólameistari