19.9.2020 Skilaboð frá skólameistara

Kæru nemendur og aðstandendur

Nú eru liðnar fjórar vikur af skólanum og í lok næstu viku er kennsla þessarar annar hálfnuð. Í næstu viku eru tveir námsmatsdagar og fellur þá hefðbundin kennsla niður en nemendur sem hafa misst af prófum og verkefnum vegna veikinda geta þreytt þau í samráði við kennara. Í lok næstu viku verður miðannarmat fært og mun það liggja fyrir eftir þá helgi.

Af samræðum við nemendur heyrum við að sumir þeirra eiga í erfiðleikum með að halda utan um nám sitt. Kennarar eru duglegir við að senda þeim upplýsingar og stundum eru mörg skilaboð á degi hverjum. Það er tilvalið fyrir aðstandendur að ræða þetta við unga fólkið og bjóða fram aðstoð við að halda utan um námið reynist þess þörf. Þessar aðstæður eru erfiðar og eðlilegt að mörgum reynist erfitt að sjá heildarmyndina.

Fréttir af framgangi Covid-19 gætu verið betri og litlar líkur á að losað verði frekar um höft á næstu vikum. Viljum við nota þetta tækifæri til að hvetja nemendur til að herða sig í persónulegum sóttvörnum. Þvo og sóttverja hendur og gæta að fjarlægðarmörkum og vera heima ef um veikindi er að ræða. Þegar upp er staðið er það undir okkur sjálfum komið að koma í veg fyrir smit. Jafnframt er mikilvægt að setjast ekki í dómarasæti yfir öðrum. Það velur enginn það að smitast og óvinurinn er veiran sjálf. Miklar upplýsingar um smitvarnir eru á síðunni www.covid.is og einnig á síðu skólans um Covid-19.

Á þessari stundu vitum við ekki til að smit séu innan FG en það getur breyst snögglega og munum við upplýsa nemendur og aðstandendur ef smit kemur upp.

B.kv.
Kristinn Þorsteinsson
skólameistari
e-mail: kristinn@fg.is