FG-ingar í Erasmus-verkefni á Spáni

Allir glaðir í Lugo á Spáni í Erasmus-verkefni. Tekið rétt fyrir heimferð.
Allir glaðir í Lugo á Spáni í Erasmus-verkefni. Tekið rétt fyrir heimferð.

Fyrir skömmu fór hópur á vegum FG í Erasmus-ferð til borgarinnar Lugo á NV-Spáni. Um var að ræða 12 nemendur, ásamt þeim Ylfu, Hilmari, Sif og Gunnari. Byrjað var á að fljúga til Parísar, en þar lenti hópurinn í rúmlega fimm tíma seinkun. Kom því hópurinn seint og um síðir á leiðarenda. Annars gekk ferðin mjög vel, nemendur dvöldu hjá spænskum fjölskyldum og einn nemenda gisti meðal annars hjá rektor skólans.

Stíf, spænsk dagskrá var frá morgni til kvölds og margt áhugavert gert. Meðal annars voru borgirnar Santiago De Compostela og La Corona skoðaðar. Fræddust nemendur um sögu og menningu landa sinna og er óhætt að segja að þau íslensku hafi slegið í gegn með myndböndum og öðru glensi sem þau framreiddu fyrir Spánverjana í kynningum á bókasafni skólans. Sá heitir á spænsku ,,IES Nosa Señora dos Ollos Grandes“ og þar eru nemendur á aldrinum frá 12 til 18 ára.

Með í för átti að vera hópur nemenda frá Noregi, en sökum kennaraverkfalls þar komust þau ekki núna og var það miður. Einungis tveir kennarar frá Noregi komu til Spánar.

Heim flaug svo hópurinn fyrst frá Lugo til Barcelona og þaðan áfram með Play. Það voru sælir nemar sem stigu frá borði á Keflavíkurflugvelli og fóru svo til síns heima, góðri ferð lokið.