LEG kostar - mikið undir

Stjórn leikfélagsins Verðandi, en Eva Bryndís er lengst til hægri á myndinni.
Stjórn leikfélagsins Verðandi, en Eva Bryndís er lengst til hægri á myndinni.

Eins og fram hefur komið hér á FG.is tókst að frumsýna söngleikinn LEG eftir Hugleik Dagsson fyrir skömmu og standa sýningar nú yfir.

En flestir spá kannski ekki í alla þá gríðarlegu vinnu og kostnað sem er að baki svona uppsetningar. ,,Ætli kostnaðurinn hlaupi ekki á einhverjum milljónum, kannski fjórum til fimm þegar upp verður staðið,“ sagði Eva Bryndís Ágústsdóttir, fjármálastjóri leikfélagsins Verðandi, þegar tíðindamaður FG.is náði spjalli af henni.

Að sögn Evu var lítið til af peningum vegna síðustu sýningar, Reimt, árið 2020, en fljótlega eftir frumsýningu í fyrra skall kóvid á og skólanum lokað. Þannig fór um þá fínu leiksýningu, sem tíðindamaður var reyndar svo heppinn að sjá.

,,Skólinn er búinn að hjálpa okkur mjög mikið við þessa uppsetningu,“ sagði Eva og bætti við að það væri til dæmis búið að kaupa nýtt ljósaborð. Slík græja kostar að hennar sögn um tvær milljónir króna. Síðan þarf að borga höfundi, leikstjóra, kaupa í leikmynd og allt hvaðeina. ,,Þetta er sýning sem kostar mikla peninga,“ sagði Eva Bryndís að lokum.

Það er því mikið undir, en sýningar eru nú á fullu og miðar eru til sölu á www.tix.is