Mikilvæg tilkynning frá skólameistara FG

Skólahald í FG raskast verulega á vorönn 2020 vegna Kórónaveirunnar
Skólahald í FG raskast verulega á vorönn 2020 vegna Kórónaveirunnar

Kæru nemendur, aðstandendur og forráðamenn.

Nú er orðið ljóst að ekki verður kennt í dagskóla næstu vikurnar eða allavega fram að páskum. Þessu fylgir óhjákvæmilega talsvert rask fyrir nemendur og kennara. Við munum engu að síður kappkosta að halda úti kennslu á eins markvissan hátt og okkur er unnt. Öllum ætti þó að vera ljóst að lokun dagskólans reynir mikið á nemendur og foreldra. Því meira sem nemandinn leggur á sig því líklegri er hann til að ná þeim árangri sem stefnt er að á þessari önn. Það er algjört lykilatrið að fygjast vel með tölvupóstum frá skólanum. 

Vegna samkomubannsins mun FG grípa til eftirfarandi aðgerða: 

 • Skólahúsnæði FG verður lokað fyrir nemendur í samræmi við ákvæði samkomubanns.

 • Kennarar halda uppi kennslu í sínum áföngum með aðstoð Innu.
  • Kennsla fer fram eftir stundatöflu utan þess að fyrstu tímar byrja klukkan 9:00 í stað 8:10.
  • Kennarar stofna umræðuþræði í námshópum sínum fyrir hvern tíma í stundatöflu.
  • Kennarar merkja viðveru í Innu á grundvelli þátttöku í umræðuþráðunum.
  • Kennslan fer fram í gegnum umræðuþráðinn þar sem spurningum nemenda er svarað, verkefni lögð fyrir og útskýrð. Í einhverjum tilfellum munu kennarar styðjast við fjarfundabúnað og munu þeir upplýsa um það í gegnum Innu.
  • Utan verkefnatíma skila nemendum verkefnum sem fyrir þá eru lögð.
  • Fjarvistir verða skráðar sem áður og ber að tilkynna veikindi í gegnum Innu.

 • Kennarar munu endurskoða námsáætlanir fram að páskum og láta nemendur vita af þeim breytingum.

 • Námsráðgjöf verður í boði sem fyrr. Auður og Dagný námsráðgjafar verða með símatíma frá 9:00 - 14:00. Einnig er hægt að senda þeim fyrirspurnir í tölvupósti, audur@fg.is og dagny@fg.is. Við hvetjum nemendur eindregið til að nýta sér þjónustu þeirra. 

 • Hægt er sjá netföng allra starfsmanna á heimasíðu skólans www.fg.is . Einnig má senda fyrirspurnir á fg@fg.is og verður þeim komið á viðeigandi staði. Sími skólans er 520 1600 og verður svarað í síma frá 8:00 - 15:00 sem fyrr.

Auðvitað er margt óljóst ennþá og fjölmargar spurningar eiga eftir að vakna hjá nemendum, foreldrum og kennurum. Við munum svara þeim eftir bestu getu og tilkynna um allar breytingar eins fljótt og unnt er. Þetta eru fordæmalausir tímar, en við erum sannfærð um að við munum yfirvinna alla erfiðleika og í sameiningu ljúka þessari önn. 

Með skólakveðju, Kristinn Þorsteinsson, skólameistari.