Fréttir & viðburðir

Fréttir & tilkynningar

30.05.2020

Egill Andrason dúx á vorönn 2020

Brautskráning á vorönn 2020 fór fram í Urðarbrunni laugardaginn 30.maí kl. 11.00, að viðstöddum brautskráningarefnum, helstu stjórnendum og tækniliði skólans. Kóvid-veiran illskeytta setti því mjög svip sinn á þessa hátíðlegu athöfn, sem send var út beint á netinu fyrir aðstandendur. Kennarar biðu á kennarastofu skólans og fögnuðu síðan nemendum utandyra í lok athafnar. Allt þetta breytti því þó ekki að hátíðlegur andi sveif yfir vötnum og athöfnin hin ánægjulegasta. Alls voru 103 nemendu er sem kvöddu FG að þessu sinni, en af þeim voru 100 sem brautskráðust af stúdentsbrautum. Dúx að þessu sinni var Egill Andrason af listnámsbraut, með 9,5 í meðaleinkunn. Alls voru sex nemendur í hópnum með yfir 9,0 í meðaleinkunn. Þá flutti Egill ennfremur eigið lag og texta á athöfninni, Óðurinn til vináttunnar. Helga S. Jónsdóttir, Ugla Helgadóttir og Hrefna Hlynsdóttir fluttu einnig í byrjun athafnar lagið „Coming Home“ eftir Sigurjón Brink og Valgerður L. Guðmundsdóttir flutti fína ræðu nýstúdents. Fjöldi nemenda fékk svo hinar ýmsu viðurkenningar, bæði fyrir góðan árangur í námi og mætingu. Hér er textinn eftir Egil: Óðurinn til vináttunnar. Hlátrasköll ég heyri ennþá. Hróp og hamingja. Aðeins auðæfi úr manni mig umkringja. Framtíðar fortíðarþrá Finn ég grípa um mig leiði yfir að lífsgranni fari að færa sig. Þetta er óðurinn til vináttunnar Un þá sem ég hef átt og mun unna. Engin orð fá þeim lýst sem líf mitt um snýst. Saga eftir sögu, ævintýr, saman allt er best. Fyrir skilnað okkar um bið ég skilafrest. Við kaflaskiptum má alltaf við búast. Þú ert ekki alveg eins og þú varst en við njótum á meðan kostur er. Þetta er óðurinn til vináttunnar. Um þá sem ég hef átt og mun unna. Engin orð fá þeim lýst sem líf mitt um snýst. Í gegnum súrt og sætt mína daga litið svo skært. Á réttri stund, á réttum stað við komum saman. Er nú komið að kveðjukossum Ég kveð ykkur um hríð. Strembið er að sigra saknaðarstríð Þetta er óðurinn til vináttunnar Þá sem ég hef átt og mun unna. Engin orð fá þeim lýst sem líf mitt um snýst Í gegnum súrt og sætt mína daga litið svo skært. Á réttri stund, á réttum stað við komum saman.

Á næstunni

Yfirlit viðburða