28.01.2020
Imbru-dagar 2020 hefjast formlega miðvikudaginn 29.janúar með fyrirlestri Andra Snæs Magnasonar í Urðarbrunni. Þar á eftir fylgir svo vönduð (og vonandi skemmtileg) dagskrá fyrir nemendur FG. Árshátíð nemenda rekur svo smiðshöggið á Imbruna á fimmtudagskvöldið. Engin kennsla er síðan á föstudaginn og hefst kennsla í FG ekki aftur fyrr en mánudaginn 3.febrúar. Kennslu á miðönn lýkur síðan miðvikudaginn 12.febrúar. Hvetjum nemendur til að skrá sig á viðburði og taka þátt í Imbrunni.
Lesa meira
21.01.2020
Dregið var í sjónvarpskeppni Gettu betur 2020 fyrir skömmu. FG hefur unnið sér rétt til keppni í sjónvarpskeppninni, sem hefst þann 31.janúar, sem er föstudagur. Þá færist keppnin upp á æðra stig, með tilkomu öflugasta fjölmiðils sem völ er á; sjónvarpi. Viðureignir Gettu betur í sjónvarpi eru þar að auki hin besta skemmtun. Alls komust átta lið í sjónvarpskeppnina og andstæðingar FG í fyrstu (og vonandi ekki síðustu) atrennu er Fjölbrautaskólinn við Ármúla. Nokkuð langt er síðan sá skóli hefur komist í sjónvarpskeppnina. Á vef RÚV er listi yfir fyrstu viðureignirnar og er hann svona:
31. janúar Tækniskólinn - Borgarholtsskóli
7. febrúar Fjölbrautaskólinn við Ármúla - Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
14. febrúar Kvennaskólinn í Reykjavík - Menntaskólinn í Reykjavík
21. febrúar Menntaskólinn á Ísafirði - Verzlunarskóli Íslands
ÁFRAM FG!!
Lesa meira
17.01.2020
Lið FG tryggði sér þátttökurétt í sjónvarpskeppni Gettu betur þegar liðið vann Fjölbrautaskóla Austur-Skaftafellssýslu með 21 stigi gegn 12 stigum FSA. Alls eru því átta lið komin í sjónvarpskeppnina, en lesa má betur um það í frétt á RÚV. Vel gert FG og við hlökkum til gláps!
Lesa meira
15.01.2020
Það líður að frumsýningu á nýju leikriti hjá Verðandi, leikfélagi FG. Í ár verður íslenskt stykki sýnt og hefjast sýningar 6.mars. Í tilkynningu frá Verðandi segir: ,,Söngleikur ársins heitir Reimt og er frumsaminn söngleikur eftir Karl Ágúst Úlfsson (texti og handrit) og Þorvald Bjarna Þorvaldsson (Todmobile, tónlist). Einnig hefur slegist í lið með okkur dóttir Karls sem heitir Brynhildur Karlsdóttir, en hún sér um dansinn.
Flétta sögunnar er á þann veg að tveir landsfrægir leikarar á eftirlaunum eru plataðir í að kaupa gamalt sveitahótel sem er á síðasta snúningi, í leit að nýjum tækifærum. Það bætir gráu ofan á svart að aldagömul beinagrind án hauskúpu finnst rétt við bæinn." Tugir koma að sýningunni og í leikarahópnum eru yfir 40 nemendur. Karl Ágúst Úlfsson er einn þekktasti gamanleikari Íslands og Þorvaldur er risanafn í íslenskri tónlist, enda heilinn á bakið stórsveitina Todmobile.
Lesa meira
09.01.2020
Lið FG hóf keppni í spurningarkeppni framhaldskólanna, Gettu betur, mánudaginn 8.janúar þegar liðið mætti Menntaskólanum í Borgarfirði. Lauk þeirri viðureign með sigri okkar fólks, FG vann með 22 stigum gegn 16 stigum Borgfirðinga. Þar með er ljóst að FG er komið í aðra umferð keppninnar, en þá mætast lið FG og Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Besti árangur FG í Gettu betur var árið 2018 þegar lið FG vann keppnina. Lið FG skipa (f.v.): Kjartan Leifur Sigurðsson, Sara Rut Sigurðardóttir og Óttar Egill Arnarsson. Þjálfarar liðsins eru meðal annars liðsmenn sigurliðsins frá 2018. Það er víst æft stíft um þessar mundir. Gott gengi!
Lesa meira
16.12.2019
Nemendafélag FG, NFFG, hélt fyrir skömmu góðgerðarbingó í Urðarbrunni og tókst það með ágætum. Það var haldið til styrktar Barnaspítala Hringsins, en Hringurinn er kvenfélag sem stofnað var árið 1904 og hefur styrkt Barnaspítalann dyggilega í gegnum árin. Fulltrúar NFFG, Anna Sóley og Eygló Birna skruppu síðan niður á Barnaspítala eftir bingóið og afhentu þar gjafir, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Vel gert NFFG, góð samfélagsvitund!
Lesa meira
13.12.2019
Hinseginfélag FG var stofnað í Fjölbrautaskólanum Garðabæ þann 11.desember síðastliðinn, en undirbúningur þess hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Á stofnfundinum var Jóhann Gunnarsson kosinn formaður og Daníela Ehman í stöðu ritara. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu er markmið þess meðal annars...,,að gera hinsegin nemendum skólans kleift að geta verið eins og þau eru og búa til öruggt samfélag innan veggja skólans fyrir hinsegin fólk." Einnig er markmið að fræða bæði nemendur og kennara um notkun fornafna og að vinna gegn fordómum, standa að viðburðum og öðru slíku.
Lesa meira
13.12.2019
Föstudaginn 13(!) desember síðastliðinn tóku nokkrir nemendur sig til í anddyri skólans og skelltu í hraðskákmót á meðan dagsbirtu naut. Eins og sjá má á neðri myndinni var allt "í beinni" á samfélagsmiðlum. Hart var tekist á og mannfallið mikið! Talið er að sögu skákarinnar megi rekja að minnsta kosti 1500 ár aftur í tímann, til Indlands, og þess svæðis sem einu sinni kallaðist Persía. Þess má einnig geta Íslendingar eiga óvenju marga stórmeistara í skák, miðað við hina margfrægu höfðatölu. Gott ef við áttum ekki, eða eigum heimsmet í þessu. Hvernig væri nú að skella í Skákfélag FG?
Lesa meira
12.12.2019
Nemendur hjá Ingibjörgu textílkennara hafa verið að skreyta skólann í skammdeginu og hér má sjá dæmi um afrakstur vinnu þeirra.
Lesa meira
10.12.2019
Vegna veðurs fellur öll kennsla niður í FG eftir hádegi þann 10.desember.
Lesa meira