21.04.2021
Nemendur hjá Tinnu í frumkvöðlafræði kynntu og seldu afurðir sínar þann 20.apríl síðastliðinn. Þar voru ýmsar vörutegundir á boðstólum; kerti, töskur, handáburður, ís, jójó og hvaðeina. Gaman að sjá hversu mikil breiddin var og fjölbreytileikinn var í raun það sem einkenndi sýninguna.
Lesa meira
16.04.2021
Í tilkynningu frá Nemendafélagi FG (NFFG) kemur fram að þetta sé ádagskrá næstu þrjár vikurnar:
Góðgerðarvika: 19 - 23 . apríl 2021
- Fyrirlestur mánudaginn 19. apríl kl 10:30 á zoom
- Pylsur og tónlist í andyrinu 20. apríl í hádeginu
- Vikan og áheiti fara fram í gegnum Aur og Instagram
Salsavika: 26 - 30. apríl 2021
- Salsa FM útvarp
- Salsasósukappát live á facebook. Fyrstur að klára eina krukku fá vinning.
- Ami hefur Taco í matinn á miðvikudeginum.
- Litlum Doritos pokum dreift í stofur á mánudeginum.
- Artisti í andyrinu á fimmtudeginum.
- Salsa tónlist alla daga.
- Skólinn verður salsaður upp!
Kosningavika 3-7. maí 2021
- Kosningavaka á fimmtudagskvöldinu live á youtube
- Áróður eftir reglum en ólíklegt að það verði básar.
- Rafrænar kosningar á Innu
- IGTV um helstu stöður og formenn
Lesa meira
16.04.2021
Nemandi úr FG, Unndís Ida Ingvarsdóttir, hefur verið valin sem fulltrúi Íslands til að stunda nám við alþjóðlega menntaskólann í bænum Flekke í Noregi.(e. Red Cross Nordic United World College) í Flekke í Noregi. Skólinn er hluti af alþjóðlegu skólasamtökunum og er í fararbroddi alþjóðlegrar menntunar til stúdentsprófs, með það að markmiði að menntun ungmenna með ólíkan menningarbakgrunn auki skilning og samstarf milli þjóða og menningarheima. Flekke er smábær, með aðeins um 200 ibúa, norðan við Bergen (Björgvin).
,,Þetta er mjög spennandi og mig hlakkar til,“ sagði Unndís í stuttu spjalli við FG.is. Aðspurð sagðist hún ekki vita hvað tekur við að náminu loknu, sem tekur tvö ár. ,,Kannski kem ég aftur hingað og klára Leiklistarbrautina, en annars býður námið upp á allskonar möguleika í öðrum löndum, að því loknu,“ sagði Unndís. Náminu lýkur með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi. Við óskum henni að sjálfsögðu góðs gengis.
Lesa meira
15.04.2021
Það kannski tekst í þetta sinn? Í ljósi nýrra sóttvarnarreglna frá yfirvöldum hefur verið sett á ný dagsetning fyrir frumsýningu á söngleiknum LEG, eftir Hugleik Dagsson.
Flestir vita að upprunalegu frumsýningunni var frestað fyrir tæpum þremur vikum vegna kóvid. Nú er stefnt á frumsýningu laugardaginn 24.apríl kl. 19.00.
Uppselt er á þá sýningu. Miðasala er enn á TIX.is, þetta verður að takast núna, við krossum okkur í bak og fyrir.
Lesa meira
23.03.2021
Nú er vor og það þýðir LEIKHÚS í FG, en á föstudaginn frumsýnir Verðandi, leikfélag FG, söngleikinn LEG eftir hinn hnífskarpa Hugleik Dagsson. Frumsýning leikrits er yfirleitt einn af hápunktum skólaársins og því mikil spenna í loftinu, kannski pínu sviðsskrekkur og allt! LEG fer svo í almennar sýningar laugardaginn 27.mars og eru sýningar klukkan 20.00. Miðasla er á TIX.is.
Lesa meira
23.03.2021
FG fagnaði fyrir skömmu sínu fjórða græna skrefi (af fimm) og á myndinni eru þau Íris Hvanndal Skaftadtóttir, raungreinakennari, Snjólaug Bjarnadóttir, aðstoðarskólameistari og Kristinn Þorsteinsson, skólameistari, með viðurkenningarskjalið. Íris og Snjólaug hafa verið tengliðir við Umhverfisstofnun vegna verkefnisins.
,,Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Verkefnið er fjármagnað af Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og er þátttaka því stofnunum að kostnaðarlausu," segir á vef verkefnisins, en fjöldi stofnana tekur þátt í því. Loftslags og umhverfismálin eru einn mikilvægasti málaflokkur samtímans og framtíðarinnar, því aðeins eru um eina jarðkúlu að ræða, þar sem um 7,5 milljarðar manna búa.
Lesa meira
22.03.2021
Sigurkarl Magnússon, raungreina og jarðfræðikennari FG, er einn af þeim fjölmörgu sem farið hafa og skoðað eldosið sem hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesi þann 19.mars síðastliðinn. Um 800 ár eru frá því að síðast gaus á svæðinu og er því gosið sögulegt. Fátt hefur verið í fréttum siðan gosið hófst og hafa sumir lent í hremmingum, enda um nokkurra klukkustunda göngu að ræða í úfnu hrauni. Að sjálfsögðu tók Sigurkarl með sér sýnishorn af "nýja Íslandi" eins og myndirnar sýna. Hann sýndi okkur samkennurum molann á kennarastofunni og mun hann að öllum líkindum nota hann í kennslunni.
Lesa meira
27.02.2021
Alls brautskráðust 33 nemendur frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, við athöfn sem haldin var föstudaginn 26.febrúar síðastliðinn. Af þeim sem brautskráðust voru sjö af viðskiptabrautum, sjö af hönnunar og markaðsbraut, fimm af félagsvísindabraut, fimm af listnámsbrautum, fjórir af náttúrufræðibraut, þrír af íþróttabraut og tveir af alþjóðabrautum.
Það var Sigurbjörg Eiriksdóttir sem var dúx á miðönn og hún fékk einnig verðlaun fyrir góða ástundun.
Emilía Ósk Friðjónsdóttir fékk verðlaun fyrir lokaverkefni á hönnunar og markaðsbraut og Hermann Óli Bjarkason fyrir góðan árangur í íþróttafræði.
Þá fékk Snædís Sól Geirsdóttir viðurkenningu Soroptimistafélags Garðabæjar fyrir framfarir í námi og hvatningu til áframhaldandi náms. Ávarp nýstúdents flutti svo Natalía Erla Arnórsdóttir.
Í ræðu sinni var skólameistara ástandið vegna kóvid-19 hugleikið, en hann vonast eftir að nú á vorönn, sem nýlega hófst, verði hægt að halda skólastarfi FG sem eðlilegustu: ,,Þó ég hrósi rafrænum lausnum í kennslu þá hefur verið mikið skemmtilegra í skólanum síðan nemendur sáust á göngunum. Gleði nemenda við koma aftur í skólann var auðséð og einn kennarinn sagði að þeir væru næstum því hressir á morgnana,“ sagði Kristinn Þorsteinsson, skólameistari meðal annars þegar hann kvaddi nemendur.
Lesa meira
24.02.2021
Kennsla á vorönn fór af stað með látum, bókstaflega talað, miðvikudaginn 24.febrúar, en þá skalf jörð á Reykjanesi og um nánast allt land. Þeir sem voru mættir í FG fundu vel fyrir því sem á gekk. Kennt verður fram til 26.mars og þá hefst páskafrí, en að því loknu heldur svo kennsla áfram til þriðjudagsins 18.maí, sem er síðasti kennsludagur á vorönn. Brautskráning á vörönn verður svo laugardaginn 29.maí. Föstudaginn 26.febrúar kveður svo FG hópur nemenda sem er að útskrifast á miðönn. Athöfnin hefst kl. 15.00 í Urðarbrunni og þrátt fyrir að létt hafi verið á samkomubanni verður um fámenna athöfn að ræða.
Lesa meira
08.02.2021
Nú er kennslu á miðönn að ljúka og hefjast próf á föstudaginn, 12.febrúar. Nemendur hafa orðið varir við tilslakanir innan skólans í kjölfar tilslakana í samfélaginu, vegna kóvid19. Þetta þýðir meðal annars að ákveðnir sófar eru komnir á sinn stað, unnendum þeirra til mikillar ánægju.
Lið FG keppti i Morfís fyrir skömmu við Menntaskólann á Akureyri en þurfti að lúta í lægra haldi, þrátt fyrir gríðarlega jafna og spennandi keppni, þar sem yfir 3000 stig voru gefin.
Lið FG í Gettu betur hefur hinsvegar sjónvarpskeppni sína föstudaginn 12.febrúar þegar liðið mætir MR í beinni útsendingu á Ríkisútvarpinu, RÚV. Keppnin hefst stundvíslega kl. 19.40. Áfram FG!
Lesa meira