Fréttir

FG hefur keppni í Gettu betur

Hin margfræga spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, er að hefja göngu sína og verður fyrsta umferðin haldin á Rás tvö þriðjudaginn 10.janúar. Þá mætir FG, sem varð öðru sæti í fyrra, Menntaskóla Borgafjarðar. MR vann keppnina í fyrra. Þetta er 38.árið sem keppnin er haldin og alls eru 25 skólar skráðir til leiks, en handhafar Hljóðnemans, MR, sitja hjá í fyrstu umferð. Lið FG hefur stundað stífar æfingar að undanförnu og í stuttu spjalli við liðið kom fram að þær hafi gengið vel. FG er til í slaginn, en í liði skólans eru: Brynja Sævarsdóttir, Aron Unnarsson og Jónas Bjarki Björnsson. Þjálfarar liðsins eru reynsluboltarnir frá í fyrra, þau Kjartan Leifur Sigurðsson, Dagmar Íris Hafsteinsdóttir og Þráinn Gunnlaugsson, ásamt Óttari E. Arnarssyni. Því má svo bæta við FG-ingurinn og sjónvarpskonan Helga Margrét Höskuldsdóttir (einnig fyrrum Gettu betur-keppandi) kemur að því að semja spurningar í keppnina. Kristjana Arnarsdóttir spyr keppendur.
Lesa meira

Kennsla hefst að nýju

Gleðilegt nýtt ár kæri lesandi. Kennsla hefst að nýju í FG að loknu jólafríi þriðjudaginn 3.janúar. Þá heldur miðönn sem sagt áfram. Segja má að kennt verði sleitulaust fram að annarlokum, með þeirri undantekningu að námsmatsdagar eru þann 25.janúar (miðvikudagur) og þann 9.febrúar (föstudagur). Próf miðannar standa svo yfir frá 10.febrúar til og með 14.febrúar (11.og 12. febrúar er helgi). Kennsla á vorönn hefst svo 22.febrúar.
Lesa meira

Stöpull Wegeners skoðaður

Hópur jarðfræðinema skrapp um daginn út í góða veðrið til að kynna sér jarðfræði og landmótun í nærumhverfi skólans. Meðal annars var skoðaður stöpull sem þýski jarðfræðingurinn Alfred Wegener setti upp á Arnarneshæðinni árið 1930. Wegener setti fram ,,Landrekskenninguna“ árið 1915, en hún gengur út á að landaskipan hafi breyst með tímanum og ýmsir landflekar hafi hreyfst til. Stöpullinn á Arnarneshæðinni átti að vera fastur mælipunktur á Íslandi, en sambærilegur punktur er til dæmis á Grænlandi. Þeir sem hafa numið jarðfræði vita ef til vill líka að Ísland er á tveimur landflekum, Evrasíiuflekanum og Norður-Ameríkuflekanum og mætast þeir meðal annars á Reykjanesi, ekki langt frá gosstöðvunum á Fagradalsfjalli. Fekaskilin eru eru vinsæll ferðamannastaður.
Lesa meira

Nemendur frá FG í Cordoba á Spáni

Fyrir skömmu fór lítill hópur nemenda frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ til borgarinnar Cordoba á Spáni í alþjóðlegt samstarfsverkefni á vegum Erasmus. Í þessu verkefni eru nemendur frá Grikklandi, Króatíu, Ítalíu, Portúgal og Spáni að vinna saman í frumkvöðlaverkefnum. Nemendurnir frá FG gistu hjá spænskum fjölskyldum og fengu að upplifa það að vera hluti af spænskri fjölskyldu í heila viku. Í þessari ferð fengu nemendur að kynnast borginni Cordoba og því sem borgin hefur upp á að bjóða, sem er allt frá ólívurækt til súkkulaðis. Í henni búa um 320.000 manns og að lokinni kynningu byrjuðu nemendur að vinna saman með því markmiði að skapa atvinnu- og fjárhagsleg tækifæri fyrir borgina. Margar flottar hugmyndir sem litu dagsins ljós, tveir nemendur frá FG áttu t.d. þá hugmynd að nýta þann afgang sem verður til vegna ólívuolíu í lífræna málningu sem hægt væri að nýta á marga vegu. Önnur hugmynd frá okkar nemendum var að nýta þá auðlind sem sólin er og setja upp sólarplötur á ólívuekrurnar, til að framleiða rafmagn sem yrði notuð í framleiðsluferlinu. Almennt gekk ferðin vel og voru nemendur skólanum til sóma, en þau sem fóru eru: Tómas Freyr Jónsson, Ísalind Örk Ingólfsdóttir, Halldór Snær Lárusson og Sara Rós Lin Stefnisdóttir.
Lesa meira

Skólaþing þann 6.desember

Það er mikilvægt að raddir nemenda heyrist í skólastarfinu og lýðræði er nokkuð sem mikilvægt er að standa vörð um, kannski sérstaklega á þeim tímum sem við lifum nú. Skólum er einnig uppálagt að kenna lýðræði. Því verður svokallað ,,Skólaþing“ haldið þriðjudaginn 6. desember kl. 11:15. Skólaþinginu er ætlað að vera vettvangur þar sem nemendur fá tækifæri til að tjá sig um skólann og skólamenninguna. Síðan er hugmyndin að niðurstöður skólaþingsins verðar hafðar til hliðsjónar við stefnumótun innan skólans. Tökum þátt og verum með! Það er lýðræði.
Lesa meira

Brautskráning af haustönn 2022

Brautskráning í FG af haustönn 2022 fór fram í Urðarbrunni þann 18.nóvember síðastliðinn. Þá brautskráðust 36 nemendur, flestir af flestir af náttúru og viðskiptafræðabrautum, eða alls sjö af hvorri, en þar á eftir komu listabrautir með fimm nemendur brautskráða. Það var Guðmundur Grétar Magnússon sem opnaði hátíðina með því að flytja lagið ,,Gamli skólinn“ eftir Magnús Eiríksson úr hljómsveitinni Mannakornum og hlaut hann góðar undirtektir. Síðan fylgdi brautskráning, afhending viðurkenninga, kveðja frá skólanefnd og ávarp nýstúdents, sem Íris Jóna Erlingsdóttir flutti. Athöfninni lauk síðan með fjöldasöng, ‚,Íslands minni.“
Lesa meira

Brautskráning föstudaginn 18.nóv - framhaldið

Kennsla er hafin á miðönn í FG og stendur hún fram til 10.febrúar næstkomandi, en þá hefjast próf. Síðasti kennsludagur fyrir jól er 16.desember. Jólaleyfi stendur til þriðjudagsins 3. janúar, en þá hefst kennsla á nýju ári. Brautskráning fyrir haustönn fer fram föstudaginn 18.nóvember og hefst hún kl. 15.00 í Urðarbrunni, hátíðarsal skólans. Myndirnar sem fylgja þessari frétt eru dæmi um listsköpun nemenda á haustönn, en í lok hverrar annar er skólinn gjarnan skreyttur með list nemenda. Það er góður siður.
Lesa meira

Heimsókn til forseta Íslands

Stjórnmálafræðinemar duttu í lukkupottinn í síðustu kennsluviku haustannar, en þá gafst þeim tækifæri á því að heimsækja forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannesson á Bessastöðum. Var vel tekið á móti hópnum með kaffi og kleinum og sýndi Guðni hópnum meðal annars hið virðulega og ævagamla eikarborð, sem keypt var til landsins um miðja síðustu öld. Þá setti Guðni einnig á svið þá athöfn með nemendum þegar hann tekur á móti sendiherrum annarra ríkja í fyrsta sinn. Síðan tók við gott spjall um heima og geima þar sem víða var komið við. Daginn eftir þaut svo Guðni til Slóvakíu í opinbera heimsókn, enda mikið að gera hjá forseta Íslands.
Lesa meira

FG-ingar í Erasmus-verkefni á Spáni

Fyrir skömmu fór hópur á vegum FG í Erasmus-ferð til borgarinnar Lugo á NV-Spáni. Um var að ræða 12 nemendur, ásamt þeim Ylfu, Hilmari, Sif og Gunnari. Byrjað var á að fljúga til Parísar, en þar lenti hópurinn í rúmlega fimm tíma seinkun. Kom því hópurinn seint og um síðir á leiðarenda. Annars gekk ferðin mjög vel, nemendur dvöldu hjá spænskum fjölskyldum og einn nemenda gisti meðal annars hjá rektor skólans. Stíf, spænsk dagskrá var frá morgni til kvölds og margt áhugavert gert. Meðal annars voru borgirnar Santiago De Compostela og La Corona skoðaðar. Fræddust nemendur um sögu og menningu landa sinna og er óhætt að segja að þau íslensku hafi slegið í gegn með myndböndum og öðru glensi sem þau framreiddu fyrir Spánverjana í kynningum á bókasafni skólans. Sá heitir á spænsku ,,IES Nosa Señora dos Ollos Grandes“ og þar eru nemendur á aldrinum frá 12 til 18 ára. Með í för átti að vera hópur nemenda frá Noregi, en sökum kennaraverkfalls þar komust þau ekki núna og var það miður. Einungis tveir kennarar frá Noregi komu til Spánar. Heim flaug svo hópurinn frá Lugo til Barcelona og þaðan áfram með Play. Það voru sælir nemar sem stigu frá borði á Keflavíkurflugvelli og fóru svo til síns heima, góðri ferð lokið.
Lesa meira

Harpa fór með nema til Ítalíu

FG-ingar í ítölskum frumkvöðlabúðum á Suður-Ítalíu Það var heldur betur líf og fjör í Basilicata-héraðinu á Suður-Ítalíu dagana 17.-21. október 2022 þar sem FG tók þátt í Erasmus-verkefninu “Essence of Agriculture and Rural Traditiona Hospitality”, sem gengur undir vinnuheitinu “EARTH”. Þetta var fyrsta heimsókn af samtals sex talsins í verkefninu öllu, þar sem nemendur og kennarar koma saman og stendur hver heimsókn yfir í fimm daga auk ferðadaga. Samstarfslönd eru sex talsins: Ítalía, Spánn, Grikkland, Portúgal, Króatía og Ísland, sem er verkefnisstýrandi. Ítalski skólinn, sem var gestgjafi að þessu sinni, heitir Istituto Statale d’Istruzione Superiore “Pitagora” og er staðsettur í tveimur smábæjum á Suður-Ítalíu, sem heita Montalbano og Nova Siri. Í auðlindagarði Basilicata Um er að ræða frumkvöðla-verkefni, þar sem nemendum er skipt upp í alþjóðlega hópa og eiga hóparnir að vinna saman í frumkvöðlabúðum að stofnun frumkvöðlafyrirtækja, sem byggja á sjálfbærni og náttúruauðlindum þess svæðis, þar sem heimsóknin á sér stað hverju sinni. En fyrstu tvo dagana fór hópurinn í skoðunarferðir um Basilica-héraðið og í heimsókn í Nýsköpunarmiðstöð Ítalíu, sem er m.a. bakhjarl verkefnisins. Út úr Ítalíu-heimsókninni spruttu fimm frábærar viðskiptahugmyndir, sem allar áttu sér tengingu í ferðaþjónustu, grænum landbúnaði og staðbundnum auðlindum, sem svæðið býr yfir enda af nógu að taka, sbr. vínvið, ólífutré, ávaxtatré, umhverfisfegurð og fleira og fleira. Á lokakvöldi var svo haldin hátíð á miðbæjartorgi Nova Siri þar sem margmenni mætti, m.a. tveir bæjarstjórar og einn héraðsstjóri, og voru vinnings viðskiptaáætlanir tilkynntar og verðlaunaðar þar með pomp og prakt. Á lokadegi fóru þátttakendur í ógleymanlega ferð til Matera – City of Caves, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Eignuðust ítalskar fjölskyldur Fulltrúar FG í verkefninu á Ítalíu voru þau Sveinn Elí Helgason, Inga Birna Ólafsdóttir, Sandra Dís Heimisdóttir og Lára María Aðalbjörnsdóttir, sem öll eru á viðskiptasviði FG, ásamt Hörpu Valdimarsdóttur, kennara á viðskiptasviði. Nemendur gistu hjá ítölskum fjölskyldum og óhætt er að segja að myndast hafi innleg ítölsk “fjölskyldutengsl” á þessari viku og krakkarnir okkar höfðu það á orði að greinilegt væri að þeir snéru heim reynslunni ríkari, búnir að eignast ítalskar fjölskyldur fyrir lífstíð, ekki bara jafnaldra, heldur mömmur og pabba og allt upp í ömmur og afa. Fimm heimsóknir til viðbótar Jóhanna Ingvarsdóttir, sem er sjálfstætt starfandi Erasmus verkefnisstjóri, hafði veg og vanda að umsóknarferli og gegnir nú hlutverki verkefnisstjóra í verkefninu öllu, sem er til tveggja ára og lýkur því haustið 2024. Næstu heimsóknir í verkefninu eru til Cordóba á Spáni í nóvember 2022, til grísku eyjunnar Evia í apríl 2023, Peso da Régua í Portúgal í október 2023, Pozega í Króataíu í nóvember 2023 og loks fær FG heimsókn til Íslands frá öllum samstarfslöndum í apríl 2024. Í hverri heimsókn taka þátt 4 nemendur á aldrinum 14-18 ára auk tveggja kennara frá hverju landi.
Lesa meira