Fréttir

Fréttir frá Hinseginfélagi FG - ljóðakeppni - verðlaun í boði

Það má segja að upp á síðkastið hafi Hinseginfélag FG risið upp af löngum svefni. Undanfarið höfum við í félaginu gert ýmislegt til að auka sýnileika okkar, bæði hér í skólanum, og í samstarfi við aðrar hinseginnefndir í öðrum framhaldsskólum. Sem dæmi má taka ljóðakeppni sem nú er í gangi í tilefni Valentínusardagsins, en hann er haldinn er árlega 14. febrúar. Ljóðakeppnin er opin öllum sem hafa áhuga. Þemað okkar er ýmis konar ást, en þá er ekki einungis verið að tala um rómantíska ást, því ást getur verið eins mismunandi og fólk er margt. Við hvetjum alla til að senda ljóðið sitt á netfangið: hinseginfelagfg@gmail.com, skilafrestur er til og með 28. febrúar næstkomandi. Sigurvegarar verða síðan kynntir á Instagramsíðu okkar: hinseginfelagfg. Skemmtileg verðlaun verða fyrir þrjú bestu ljóðin. Markmið Hinseginfélagins í FG er að skapa umhverfi þar sem komið er fram við alla af virðingu og jafnrétti. Það vill að nemendur í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ geti verið stoltir af skólanum sínum, óháð kyni, kynhneigð, braut, fatastíl o.s.frv. Félagið er með opna fundi á hverjum þriðjudegi í stofu V315 kl. 10:30, þar sem allir eru velkomnir. Kær kveða, Hinseginfélag FG.
Lesa meira

Veggspjöld með boðskap

Nemendur í áfanganum Féla3hþ05 hjá Guðmundi Gíslasyni settu fyrir skömmu upp veggspjöld í skólanum með ákveðnum skilaboðum, sem tengjast innihaldi áfangans. Þar er meðal annars umfjöllun um þróunarlönd og samskipti þeirra og alþjóðlegra stórfyrirtækja. Nokkuð sem leitt hefur til mikillar umræðu í gegnum tíðina. Á myndinni sem fylgir eru nokkur veggspjaldasýnishorn frá nemendum, sem meðal annars koma inn á slæmar vinnuaðstæður í þessu ríkjum, auðlindanýtingu í þróunarlöndum og fleira.
Lesa meira

Keppa í úrslitakeppni í líffræði

Í lok janúar fór fram landskeppni í líffræði þar sem rúmlega þrjátíu nemendur skólans tóku þátt, en voru um 200 nemendur úr níu framhaldsskólum með í keppninni. Tveir nemendur úr FG urðu í hópi 20 stigahæstu keppenda og komast þeir áfram í úrslitakeppni sem haldin verður í Háskóla Íslands á næstunni. Þetta eru þeir Baldur Jökull Ásmundsson og Árni Kjærnested Jónsson. Í úrslitunum lenda fjórir efstu í landsliði Íslands, sem síðan mun keppa fyrir Íslands hönd í Alþjóðlegu Ólympíukeppninni í líffræði sem fram fer í Dubai í sumar. Við óskum Árna og Baldri innilega til hamingju með þennan flotta árangur og óskum þeim velfarnaðar í úrslitakeppninni.
Lesa meira

FG lauk keppni í Morfís

Lið FG lauk keppni í Morfís (Mælsku og rökræðukeppni framhaldsskólanna á Íslandi) þann 26.janúar þegar liðið mætti Kvennó fyrir fram þéttsetinn Urðarbrunn. Keppnin var að sögn geysispennandi og þegar upp var staðið munaði aðeins 100 stigum á liðunum, Kvennaskólinn fékk 1331 stig, en FG 1231. Guðrún Fjóla Ólafsdóttir, stuðningsmaður FG, var valinn ræðumaður kvöldsins.
Lesa meira

HEATHERS á fullu gasi!

Á námsmatsdeginum 25.janúar var frekar hljótt í skólanum, nema í Urðarbrunni. Þar var heldur betur líf og fjör þegar tíðindamaður FG.is leit þar við, enda lokkaði fjörug tónlistin. Þar var auðvitað verið að æfa á fullu fyrir söngleikinn HEATHERS sem frumsýna á IMBRUDÖGUM um miðjan mars. Þetta verður eitthvað hjá okkar frábæra leikfélagi, VERÐANDI!
Lesa meira

FG keppir við Kvennó í MORFÍS

Mælsku og rökræðukeppni framhaldsskólanna, MORFÍS, er farin í gang að nýju og er FG að sjálfsögðu með. Mælskulist er áhugavert fyrirbæri, en í Morfís-keppnum er tekist á með rökræðum um ákveðin málefni, talað er með og á móti. Lið FG hefur æft stíft að undanförnu og fimmtudaginn 26.janúar hefst keppni þess fyrir alvöru þegar liðið mætir Kvennó í Urðarbrunni kl. 19.00. Í liði FG eru: Freyja Dögg Skjaldberg (liðsstjóri), Tryggvi Sigurðarsson Johnsen (meðmælandi), Guðrún Fjóla Ólafsdóttir (stuðningsmaður), Bjarki Leó Björgvinsson, Einar Ernir Kristmundsson og Benedikt Kári Brynjarsson, sem er frummælandi. Umræðuefnið er ,,djammið“ og er FG á móti því. Þjálfari er Daníel Johnsen, en því má bæta við að hann var eitt sinn forseti nemendafélags FG. Áfram FG, allir velkomnir og að sjálfsögðu frítt inn.
Lesa meira

Góð Erasmus-ferð til Lilleström

Hópur nemenda, alls tólf, fóru vikuna 16.-20 janúar til Lilleström og Osló í Noregi, til að taka þátt í Erasmus-verkefni, ásamt heimamönnum frá Noregi og hópi frá Spáni. Gistu nemendur hjá norskum fjölskyldum allan tímann. Verkefnið gengur út á sögu, menningu og þjóðareinkenni landanna þriggja, en þátttakendur frá Spáni koma frá borginn Lugo, sem er á NV-Spáni, í héraðinu Galisíu. Fóru nemendur í skólann með vinum sínum, en einnig var farið á söfn, víkingamenning könnuð, farið í fjársjóðsleit, á skíði (hvað er norskara?) og fleira skemmtilegt gert. Óhætt er að segja að nemendur með óbókstaflegum hætti ,,drukkið“ í sig norska menningu og þjóðareinkenni á þessum dögum. Á lokakvöldi voru meðal annars sendiherra Íslands í Osló, ræðismaður Spánar og borgarstjórinn í Lilleström, en um svokallað ,,pálínuboð“ var að ræða, allir komu með mat með sér. Nemendur frá Íslandi voru með kynningu á landi og þjóð og þá var einnig flutt tónlistaratriði, sem óhætt er að segja að hafi slegið í gegn. Hópurinn var FG til mikils sóma, en með í för voru Rakel, Hilmar, Sif og Gunnar.
Lesa meira

Söngleikurinn Heathers: Allt að gerast!

Eins og sagt var frá hér fyrir skömmu verður söngleikur ársins menntaskólastykkið ,,Heathers“. Í tilkynningu frá leikfélagi FG, Verðandi, sem barst fyrir skömmu segir: ,,Veronica verður hluti af vinsælustu klíku skólans en líkar ekki við hegðun hinna stelpnanna. Þær setja sig á háan hest og leyfa sér því að gera lítið úr öðrum. Veronica kynnist kærastanum sínum Jason Dean og saman reyna þau að takast á við aðal skvísuna í klíkunni, Heather Chandler á mjög óvenjulegan hátt. Fljótlega fara hlutirnir úr böndunum og Veronica fer að sjá margt rangt í sambandi sínu við Jason Dean og hegðun hans. Hún þarf þá að leggja sig alla fram við að halda aftur af honum svo illt verði ekki verra. Sýningin tekur á viðkvæmum en mikilvægum málefnum eins og sjálfsvígum og kemur því sterk inn í samfélagið okkar, en er ekki ætluð ungum börnum.“ Æfingar eru komnar á fullt og allir spenntir fyrir frumsýningu í mars. Leikstjórinn í ár heitir Ásta Júlía Elíasdóttir, danshöfundurinn Júlía Kolbrún Sigurðardóttir og söngstjórinn Ylfa Marín Haraldsdóttir, en hún er fyrrum nemandi í FG. Stjórn Verðandi er (s/h mynd): Formaður: Erna María Ármann Varaformaður: Gréta Þórey Ólafsdóttir Gjaldkeri: Sigríður Inga Ólafsdóttir Markaðsstjóri: Salka Björnsdóttir Meðstjórnandi: Hafdís Ása Eðvarðsdóttir Busafulltrúi: Sesselja Ósk Stefánsdóttir Busafulltrúi: Mikael Steinn Guðmundsson
Lesa meira

Söngleikurinn Heathers er leikrit ársins

Á IMBRU-dögum í febrúar, verður söngleikurinn Heathers frumsýndur í FG í uppfærslu leikfélags skólans, Verðandi. Söngleikurinn er byggður á kvikmynd með sama nafni sem kom út árið 1988 og gerist sagan meðal menntaskólanema. Í kvikmyndinni voru þau Wynona Ryder og Christian Slater í aðalhlutverkum. Leikstjóri verksins í uppfærslu Verðandi er Ásta Júlía Elíasdóttir en hún hefur meðal annars leikið í kvikmyndunum Klassadrusla og Síðasta veiðiferðin. Æfingar eru á fullu og góð stemmning í hópnum að sögn heimildamanns fg.is.
Lesa meira