Fréttir

IMBRUdagar hafnir

Hinir svokölluðu Imbru-dagar hófust miðvikudaginn 16.mars í FG, en þá er bryddað upp á ýmsu skemmtilegu í stað náms. Það var Improv-Ísland sem reið á vaðið fyrir fullum sal með spuna og á myndinni er verið að yfirheyra Tinnu Ösp Arnardóttur, en hún ásamt Fríðu Gylfadóttur, bera hitann og þungann af skipulagi Imbru-daga. Þeir hafa ekki verið haldnir á meðan kóvidið hefur geisað og því kominn tími til. Allskonar afþreying er í boði en líka er bakað, tefld skák, farið á skauta og fjallað um alvarleg heimsmál. Dagskrá sem á að passa öllum. Öllu heila klabbinu lýkur svo með leiksýningu, árshátíð og balli á fimmtudaginn og svo sofa allir úr sér föstudaginn 18.mars.
Lesa meira

FG mætir MR í úrslitum í Gettu betur

Föstudaginn 11.mars varð það ljóst að FG mun mæta Menntaskólanum í Reykjavík, MR, í úrslitum Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, árið 2022. Keppni MR og Versló var geysispennandi og það þurfti bráðabana til að ná fram úrslitum og þar vann MR á spurningu um skák. Úrslitin fara fram næstkomandi föstudag, 18.mars, daginn eftir árshátíð FG. FG.is skilst að þau Þráinn, Dagmar og Kjartan sitji nú sveitt við æfingar, enda ekki vanþörf á. Það er verðugum andstæðingi að mæta. FG vann Gettu betur árið 2018 í fyrsta sinn (sjá mynd) og það væri ljúft að endurtaka það. Áfram FG! Mynd af liði FG: MBL.is/Kristinn.
Lesa meira

IMBRA kynnt á opnum fundi

Imbrudagar verða miðvikudag og fimmtudag í næstu viku og var dagskráin kynnt á opnum fundi miðvikudaginn 9.mars. Ótrúlega fjölbreytt og spennandi dagskrá bíður nemenda, sem fá þá að taka sér smá hvíld frá námi. Herlegheitunum lýkur svo með ársháhátíð fimmtudaginn 7.mars og þar eru bombur: Auddi og Sveppi verða veislustjórar og Páll Óskar og fleiri munu sjá til þess að engum leiðist á ballinu. Svo verður söngleikurinn Grettir einnig frumsýndur. Skráningar á IMBRU og miðasala á árshátíð verða á fimmtudaginn 9. og föstudaginn 10.mars. Það er bókstaflega ALLT að gerast!
Lesa meira

Gettu-betur-kaka í metravís

Það er mikil eftirvænting í loftinu í FG þessa dagana, meðal annars vegna þess að skólinn er kominn í úrslit í Gettu betur. Af því tilefni splæsti skólinn í Gettu-betur-köku, nánast í metravís. Og sneiðarnar flugu út, svo hratt að þegar tíðindamaður fg.is kom á svæðið, þá var nánast allt búið. Á myndinni sem fylgir eru Þráinn og Dagmar með eina góða ,,hnallþóru" á milli sín, en Kjartan var ekki með - hann var kannski að æfa sig :) Í óformlegu spjalli inni á bókasafni við hluta liðsins kom einmitt fram að núna eru æfingar stífar, mjög stífar. Lið FG mætir annað hvort MR eða Versló í úrslitum Gettur betur þann 18.mars næstkomandi, en það skýrist á föstudagskvöldið á RÚV hvor skólinn það verður. Áfram FG!
Lesa meira

Brautskráning með eðlilegum hætti: Sóley Harðardóttir dúx

Brautskráning frá miðönn 2021-22, fór fram í Urðarbrunni föstudaginn 4.mars. Um var að ræða ,,eðlilega“ brautskráningu, en lítið hefur verið um slíkt vegna kóvid. Þetta var því grímulaus brautskráning, gaman að því. Af þeim 30 sem útskrifuðust voru átta af hönnunar og markaðsbraut, sex af viðskiptabrautum, fjórir af félagsvísinda, íþrótta, listnáms og náttúrufræðibraut, hverri braut. Dúx á miðönn var Sóley Harðardóttir, af félagsvísindabraut, sem einnig fékk bæði verðlaun í ensku og félagsvísindum. Soroptimistafélag Garðabæjar og Hafnarfjarðar veitti verðlaun fyrir framfarir og þrautseigju í námi og þau fékk Annika Singh Helgadóttir. Sérstök Samfélagsverðlaun FG fékk svo Björn Gabríel Björnsson, fyrir einstaka ljúfmennsku og jákvætt viðhorf, bæði til nemenda og kennara á sínum námsferli í FG. Sunna Dís Helgadóttir flutti ávarp nýstúdents og einnig fluttu nemendur tónlistaratriði. Í ræðu sinni kom Kristinn Þorsteinsson víða viða og fjallaði meðal annars um kóvidið og áhrif þess, fordóma og átökin í Úkraínu, en nú geisar því miður stríð í Evrópu sem ekki sér fyrir endann á.
Lesa meira

FG komið í úrslit í Gettu betur

Lið FG er komið í úrslit í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettur betur. Liðið vann Menntaskólann við Hamrahlíð í æsilegri viðureign þann 4.mars, með 28 stigum gegn 25 í beinni útsendingu á RÚV. Þar með er ljóst að FG mætir annað hvort MR eða Versló í úrslitum sem fara fram þann 18.mars næstkomandi. Áfram FG!
Lesa meira

FG-ingar með í sjúkri ást

Nemendur úr FG, þau Viktoría Ósk Sverrisdóttir, Anna Bíbí Wium Axelsdóttir, Oddur Helgi Ólafsson, Salka Björnsdóttir og Alex Leó Kristinsson sjást nú í auglýsingaherferð sem tengist vefsíðunni www.sjukast.is en plaköt úr henni hanga nú meðal annars á veggjum skólans. Að auki voru nokkrir nemendur úr FG í aukahlultverkum í herferðinni. Um er að ræða átak Stígamóta sem hefur það markmið að vekja athygli ungmenna á einkennum óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda. Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Að sögn Önnu Bíbí kom þetta samstarf við herferðina ,,sjúkást“ þannig til að þau Oddur og Anna voru í liði FG sem vann leiklistarspunakeppnina Leiktu betur í fyrra. Þar vöktu þau athygli og voru fengin til að vera með í þessari herferð, sem nú er meðal annars á samfélagsmiðlum, í skólum og félagsmiðstöðvum landsins.
Lesa meira

FG gekk vel í Flensborg

Dagur FG og Flensborgar var loksins haldinn að nýju þriðjudaginn 1.mars og fór að þessu sinni fram í Hafnarfirði. Skemmst er frá því að segja að hann gekk vel hjá FG, en við unnum í fótbolta, körfubolta, bekkpressukeppni, reipitogi kennara og bandí á milli aðalstjórna skólanna. FG-ingar fjölmenntu, en um 350 nemendur fóru í Fjörðinn i blíðunni. Stuuuuð!
Lesa meira

Undanúrslit Gettu betur: FG mætir MH næsta föstudag

FG mun mæta Menntaskólanum í Hamrahlíð í undanúrslitum Gettu betur 2022. Viðureignin fer fram í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV, föstudaginn 4.mars. Þetta varð ljóst þegar MH vann Kvennaskólann í Reykjavík föstudaginn 25.febrúar. Spennustigið eykst! Áfram FG!
Lesa meira

Stöðupróf í serbnesku

Stöðupróf í serbnesku verður haldið í FG þriðjudaginn 1. mars kl. 15:30. Skráning fer fram með því að senda póst á fg@fg.is Skráningarfrestur er til 25. febrúar. Nauðsynlegt er að nafn og kennitala próftaka komi fram. Nemendur greiða 15.000 fyrir stöðuprófið. Kennitala: 581286-1639 Bankaupplýsingar: 0318-26-13268 Réttur til próftöku byggist á því að prófgjald hafi verið greitt og auk þess verða próftakar að framvísa persónuskilríkjum með mynd þegar komið er í prófið.
Lesa meira