Fréttir

Stjórnmálafræðinemar á þingi

Nemendur í stjórnmálafræði hjá Gunnari Hólmsteini gerðu góða ferð á Alþingi Íslendinga miðvikudaginn 20.október síðastliðinn. Það var þingkona Viðreisnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem tók á móti hópnum og fræddi þau um starf þingsins og fleira. Var ferðin afar fróðleg og áhuaverð, en mikið hefur gengið á í íslenskum stjórnmálum að loknum þingkosningunum, sem fram fóru í september og eftirmálum þeirra ekki lokið.
Lesa meira

Bergur Ebbi spjallaði við nemendur

Framtíðarfræðingurinn og uppistandarinn Bergur Ebbi kom í heimsókn í FG miðvikudaginn 13.október síðastliðinn. Bergur Ebbi lætur framtíðina skipta sig máli og ræddi við nemendur um allt milli himins og jarðar, en þemað var annars ,,virðing og velferð“, en í næstu viku verður sérstök forvarnarvika í Garðabæ. Bergur Ebbi er einnig rithöfundur og hans nýjasta bók heitir Skjáskot,en það er eitthvað sem ung fólk kannast vel við.
Lesa meira

Opinn fundur - sá fyrsti eftir kóvid

Fyrsti opni fundurinn eftir kóvid var haldinn í Urðarbrunni þann 6.október og var fjölmenni. Þar sáttu fulltrúar NFFG (nemendafélagsins) og stjórnenda fyrir svörum. Margt bar á góma og barst fjöldi spurninga úr sal. Ýmislegt er framundan í skólastarfinu og margt spennandi, til dæmis hinn víðfrægi íþróttadagur, FG gegn Flensborgarskóla.
Lesa meira

Dregið úr Fyrirmyndarpottinum

Föstudaginn 1.október var dregið í ,,Fyrirmyndarpottinum“ eftir ballið á SPOT daginn áður og var þátttaka til mikillar fyrirmyndar. Glæsilegir hlutir voru í boði fyrir þá sem höfðu verið til fyrirmyndar (!), en í því felst að drekka ekki áfengi, blása í áfengismæli og sanna edrúmennsku sína. Hlaut Auður Embla Sigurðardóttir til dæmis Apple Airpods að launum. Aðrir heppnir voru: Bessi Thor Jónsson 10.000 kr. gjafabréf Eldur Orri Bjarkason 10.000 kr. gjafabréf Natalía Sól Arnarsdóttir 15.000 kr. gjafabréf Bergþóra Ólafsdóttir 15.000 kr. gjafabréf Hekla Lind Björnsdóttir 20.000 kr. inneign í 66°N Gústav Ragnar Kristjánsson 20.000 kr. inneign í 66°N Einar Ernir Kristmundsson 20.000 kr. inneign í 66°N Ísak Helgi Jenssoon 20.000 kr. inneign í 66°N Á myndinni eru þau Maren og Kristófer frá NFFG að draga.
Lesa meira

Lifnar yfir félagslífinu - söngleikurinn Pálmar sýndur

Það er að lifna yfir félagslífinu í FG og öðrum menntaskólum, sem betur fer. Á fimmtudaginn verðu ball, en þá komast margir nemendur á sitt fyrsta mennatkólaball, eftir að hafa beðið í meira tvö ár. Þann 28.september hélt Verðandi svokallað ,,Open Mic“ þar sem hver sem er má flytja tónlistaratriði, leikatriði eða eitthvað annað. Síðan eru eftir tvær sýningar á söngleiknum Pálmar, en Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir, nemi á Leiklistarbraut FG og Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir, eru höfundar. Verkið fjallar um atburði í lífi afa Tinnu, arkitektsins og tónlistarmannsins, Pálmars Ólasonar, en svo skemmtilega vill til að það var einmitt Pálmar sem teiknaði og hannaði FG. Sýningar eru 30.september og 1.október og miðar eru á ww.tix.is.
Lesa meira

BALL! BALL! BALL!

Jæja, þá er komið ,,aððí"! Fyrsta alvöru ballið í ,,laaangan" tíma á vegum NFFG verður haldið fimmtudaginn 30.september á SPOT í Kópavogi. Þar verður stórskotalið íslenskra skemmtikrafta: Aron Can, FM95Blö, Sverrir Bergmann og fleiri. Það er ánægjulegt að hægt sé að halda ball, enda félagslíf nemenda verið rjúkandi rúst í kóvidinu. Í tilkynningu frá Snjólaugu Bjarnadóttur, aðstoðarskólameistara, kemur fram að allir sem ætli sér á ballið verði að fara í hraðpróf, enda þetta kóvid-drasl ekki alveg búið: ,,Allir nemendur sem kaupa sér miða á ballið þurfa að fara í covid hraðpróf. Það þarf að skrá sig í hraðpróf á https://www.testcovid.is/is og það er gjaldfrjálst. Hægt er að fara í hraðpróf á BSÍ á milli 05:30-16:45 og í Kringlunni á milli 8:15-16:15. Þegar komið er á ballið þarf að sýna neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi." Covid hraðprófin mega ekki vera eldri en 48 klst. gömul sem þýðir að nemendur ættu að fara í próf á morgun eða fimmtudag. Þá eru hraðpróf framkvæmd á Suðurlandsbraut einnig gild. Og svo bara skemmta sér, en gera það fallega :)
Lesa meira

Rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir í heimsókn

Rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir er fyrrum FG-ingur og hún heimsótti nemendur í skapandi skrifum hjá Ingibjörgu íslenskukennara fyrir skömmu. Bergrún útskrifaðist frá FG árið 2005 og undanfarin ár hefur hún unnið til fjölda verðlaun fyrir skrif sín. Meðal verðlauna sem hún hefur fengið eru íslensku bókmenntaverlaunin árið 2020 í flokki barna og unglingbókmennta fyrir bókina Langelstur að eilífu. Mæltist heimsókn Bergrúnar vel fyrir meðal nemenda. Hér er svo allur verðlaunalistinn: 2020 Vest Norrænu barnabókaverðlaunin: Lang-elstur að eilífu 2020 Íslensku bókmenntaverðlaunin: Lang-elstur að eilífu 2020 Fjöruverðlaunin - bókmenntaverðlaun kvenna: Kennarinn sem hvarf 2019 Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur: Kennarinn sem hvarf 2016 Vorvindar, viðurkenning IBBY fyrir framlag til barnamenningar
Lesa meira

Kosningavefur frá stjórnmálafræðinemum

Nemendur í stjórnmálafræði hjá Gunnari Hólmsteini hafa opnað kosningavef á vefsvæði FG. Kjósa á til Alþingis næstkomandi laugardag, en fyrir skömmu fóru fram skuggakosningar í FG. Á Kosningavefnum eru aðgengilegar upplýsingar um alla þá flokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum. Þá er einnig að finna kosningapróf og annað á vefnum.
Lesa meira

Umhverfisvika í FG

Umhverfisvika var haldin í FG um miðjan september og meðal þess sem gert var er að útskriftarnemendur haustannar mættu í gróðurreit sem FG hefur fengið úthlutað í svæði Skógræktarfélags Garðabæjar í Smalaholti. Þar var plöntun stungið niður. Veðrið var eins og best verður á kosið og voru 45 trjáplöntur gróðursettar í reitinn. Þetta er vonandi upphafið að nýrri hefð þar sem útskriftarnemendur fá að gróðursetja sitt/sín tré og um leið er stuðlað að kolefnisjöfnun ýmissar starfsemi á vegum skólans. Nemendur stóðu sig vel og eftir vel unnið verk var hressing á boðstólnum þar sem boðið var upp á brauð og drykk.
Lesa meira

Kisa stal senunni í jarðfræðiferð Sigurkarls

Jarðfræðihópur Sigurkarls fór jarðfræðiferð um næsta nágrenni skólans fyrir skömmu. Gengið var meðfram Arnarneshamarslæk að stöpli á Arnarneshæð sem er til minningar um Alfred Wegener og landrekskenningu hans. Fræddust nemendur um hana og ýmislegt jarðfræðilegt sem hægt var að sjá eins og landslagið i kring sem er meira og minna mótað af jöklum auk eldgosa og hrauna sem runnið hafa í og í kringum höfuðborgarsvæðið. Dæmi um slíkt hraun er Gálgahraun sem rann úr Búrfellsgíg í Heiðmörk fyrir rúmum 7000 árum síðan. Bergmyndir þar eru með þeim flottari sem til eru hér á landi. Mælast svona ferðir yfirleitt vel enda er kennslan færð úr kennslustofunni út í náttúruna og nemendur frelsinu fegnir og upplifa jarðfræðina á annan hátt. Nemendur voru vel kæddir og enginn skalf(!) á beinunum. Síðan hitti hópurinn þessa fallegu kisu, sem er fyrir miðri mynd og stal senunni í myndatökunni.
Lesa meira